Sonja mætti í viðtal við Höllu Harðardóttur á Rás1 í tilefni erindis hennar og Sigurðar Gísla á Fundi Fólksins. Þær ræddu stuttlega um starf Grófarinnar, reynslu Sonju af geðrænum vanda og þátttöku í Grófinni og hrakandi heilsu ungs fólks á Íslandi.
Sonja Rún Magnúsdóttir, ráðgjafi hjá Grófinni geðræktarhúsi á Akureyri, hefur sínar hugmyndir um hrakandi heilsu ungs fólks og bendir á mikilvægi fræðslu og samtals.
„Ég man þegar ég var fjórtán ára og sat í kvíðakasti inni á klósetti í skólanum, að skaða sjálfa mig. Hefði einhver eins og ég komið inn í bekkinn að tala um þessa hluti, þá hefði ekki verið tekið jafn vel í það eins og okkur er tekið í dag, “ segir Sonja Rún Magnúsdóttir, verkefnastjóri og jafningaráðgjafi hjá Grófinni geðræktarhúsi á Akureyri.
Sonja hefur um árabil tekið þátt í geðfræðslu með teymi sínu og unnið með ungu fólki í grunnskólum og framhaldsskólum. Hún hefur sjálf glímt við geðrænar áskoranir og þekkir því ekki aðeins vel til starfsemi geðheilbrigðiskerfisins, heldur veit einnig af eigin raun hvernig er að þurfa á þjónustu þess að halda. Sonja tekur þátt á Fundi fólksins um helgina, þar sem hún mun ræða geðheilsu ungs fólks, ástæður þess að henni fer hrakandi og hvernig þriðji aðili getur hjálpað.
Fjöldi rannsókna, innlendra og erlendra, benda til þess að geðheilsu ungs fólks fari hrakandi. Á Íslandi á það sérstaklega við um líðan fólks á aldrinum 18-24 ára, en sá hópur kemur ítrekað verst út í rannsóknum. Sonja bendir á að það sé flókið og vandasamt verk að benda á orsök vandans því hann sé margþættur. Hún hafi þó ákveðnar hugmyndir eftir að hafa unnið með málaflokkinn.
„Það eru auknar kröfur um menntun en á sama tíma stytta þau framhaldsskólanám, án þess að minnka kröfurnar. Þú þarft að klára jafn mikið á styttri tíma og svo þarftu að fara í háskóla og master og helst doktorinn líka. Svo held ég að samfélagsmiðlar spili stórt hlutverk, þessar glansmyndir sem maður sér allsstaðar. Þó að krakkar viti að þetta er ekki endilega raunveruleikinn þá er þetta það sem maður er að sjá, það sem er verið að minna mann á. Svo held ég að það vanti samfélagsfræðslu, almennt. Það þarf að fræða foreldra, það þýðir ekki bara að fræða börnin. Þegar þeim líður illa þá verða þau að hafa einhvern til að snúa sér til, “ segir Sonja en bætir því við að henni finnist umræðan þó vera á réttri leið. Mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því að hún sjálf upplifði mikla vanlíðan í gagnfræðaskóla á Akureyri.
„Það er magnað að tala við þessa krakka og að fá þau til sín sem vilja ráð, “ segir Sonja og bendir á mikilvægi þess að geta rætt málin, en hluti af starfi Grófarinnar felst í að heimsækja ungmenni og ræða við þau á jafningjagrundvelli. Aðspurð um ráð til aðstandenda ungs fólks með geðrænar áskoranir bendir Sonja á mikilvægi samtalsins. „Að kynna sér málið og tala opinskátt um tilfinningar, kvíða og þunglyndi. Unglingar vilja ekkert alltaf tala um tilfinningar en það að vera fyrirmynd í því að tala um tilfinningar skiptir gríðarlega miklu máli. Og bara að vera til staðar. “
Rætt var við Sonju Rún Magnúsdóttir í Samfélaginu á Rás 1. Sonja Rún tekur til máls um starfsemi Grófarinnar og eigin vegferð innan geðheilbrigðiskerfisins, á Fundi fólksins í Vatnsmýri á föstudag.
Comentarios