top of page

Geðrækt jafnmikilvæg og líkamsrækt

Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, blaðakona hjá Akureyri.net settist niður með Sonju og tók við hana viðtal um starfssemi Grófarinnar og aukna aðsókn undanfarin misseri. Greinina má lesa hér í heild sinni eða inni á Akureyri.net


Starfsemi í Grófinni - geðrækt á Akureyri hefur gefið afar góða raun. Á alþjóðlega geðverndardaginn, síðastliðinn sunnudag, var boðið til veislu í samstarfi við Barr Kaffihús í Hofi þar sem haldið var upp á 7 og 8 ára afmæli félagsins. Afmælin eru tvö þar sem ekki var hægt að boða til veislu síðasta ári.

Sonja Rún Magnúsdóttir er verkefnisstjóri Unghuga Grófarinnar. Hún á sér langa geðsögu og hefur unnið að eigin bata í mörg ár. Sonja Rún er með BA-próf í sálfræði og hefur mikinn áhuga á „að vinna með ungu fólki að bættri heilsu og stuðla að frekari úrræðum í geðvernd“ eins og fram kemur á heimasíðu félagsins – grofinak.is.


Sífellt fleiri sem koma í Grófina


Í samtali við Akureyri.net segir Sonja Rún að hópurinn sem sækir þjónustu Grófarinnar fari sífellt stækkandi. Til þeirra komi að jafnaði um 20-25 manns á dag. Sonja Rún telur ástæðuna meðal annars vera uppbyggingu og markaðsátak félagsins, opnari umræða um geðrækt og langa biðlista eftir sálfræðimeðferð.

„Við erum að fylla upp í þessa bið svo það verði ekki bakslag meðan fólk bíður eftir sálfræðimeðferð. Við byggjum okkar starf á því að taka ábyrgð á eigin bata og valdefla fólk til að taka á sínum málum á eigin forsendum.“

Breiddin í hópnum sem kemur í Grófina er meiri nú en áður. Þar má nefna að einangrun vegna Covid-19 hefur farið illa í marga. „Þau sem sækja Grófina eru ekkert endilega með geðsjúkdóm, þetta eru líka einstaklingar sem eru að takast á við andlegar áskoranir. Við leggjum áherslu á að geðrækt sé jafn mikilvæg og líkamsrækt. Við verðum að huga að geðheilsunni.“


Mjög heppin


„Ég er svo ógeðslega heppin að fá að vinna við aðal áhugamálið mitt. Hér í Grófinni er svo ótrúlega gott andrúmsloft. Það er fátt betra en að fara þarna inn hita kaffi og spjalla. Enginn er dæmdur og öllum tekið opnum örmum. Allir eru hvetjandi og góður stuðningur í þessum hópi,“ segir Sonja Rún.

Grófin - Geðrækt er til húsa í Hafnarstræti 95, á fjórðu hæð. Hægt er að bóka tíma og fá nýliðakynningu áður en farið er inn í hópastarf en það er líka einfaldlega hægt að koma án þess að gera boð á undan sér; fá sér kaffibolla og spjalla. Þjónusta Grófarinnar er gjaldfrjáls.


24 views0 comments

Recent Posts

See All

Barr og Grófin

Silja, framkvæmdarstjóri Barr í Hofi, og Sonja mættu til Villa í föstudagsþátt N4 þar sem þær ræddu við hann um góðgerðarmánuð Barr kaffihúss þar sem þau styrktu Grófina með 10% af ágóða Barr í októbe

Comments


bottom of page