top of page

Reynslusaga - Júlíus

Ég heiti Júlíus Blómkvist Friðriksson og var greindur með geðhvarfasýki árið 2013.

Líf mitt hafði fram að því alltaf einkenst af sveiflum milli himins og heljar. Ég var mjög skrýtinn sem krakki, las mikið, átti afar fáa vini og frekar einmana oft á tíðum. Ég ólst upp við mikla streitu sem orsakaðist af ósætti milli móður og föður sem varði í mörg ár. Ýmislegt slæmt gerðist þegar ég var mjög ungur, eitthvað sem ég mun ekki endilega reifa hér, sem hafði töluverð áhrif á mig og gerir enn þann dag í dag. Allt of mikilli ábyrgð var skellt á herðar 7 ára gamals barns og þegar ég var 13 var ég búinn að koma mér upp allskonar skrýtnum hegðunarmynstrum til þess að díla við einmanleikann og kvíðann.

Ég fór í mjög langar sturtur, skipti um föt þegar ég fór inn og út úr húsi. Ég trúði því að herbergið mitt væri minn griðarstaður og sóttkví. Ég sprittaði oft á mér hendurnar og var virkilega sýklahræddur. Ég var hræddur við að fitna þess fyrir utan og borðaði mjög sérstakt fæði og laug til um hvað ég borðaði og hvenær. Ég átti líka einstaklega erfitt með að tjá mig um hvernig mér leið, ég var og er einstaklega góður í að feika það.

Fyrst var mér beint til námsráðgjafa, því næst til sálfræðings og eftir það var það félagsráðgjafi þar sem okkur mömmu var bent á að fara suður í "stöðuviðtal" á BUGL. Þetta umrædda stöðuviðtal reyndist vera ekki neitt annað en neyðarinnlögn sem var ákveðin af yfirvaldinu. Hvorugt foreldra minna hafði neitt vald til þess að útskrifa mig. Þarna varð ég að dúsa á læstri deild meðal brosandi starfsmanna sem létu eins og ekkert hafði í skorist. Mér fannst ég vera bara eitthvað dýr í búri.


BUGL, á þeim tíma sem ég var þarna inni gekk út á eitt prinsipp: "Ef þú drullast ekki til þess að fylgja prógramminu þá kemstu aldrei héðan út." Áralöng æfing í því að hagræða aðstæðum eftir mínu höfði og það að leika einhver hlutverk komu að góðu gagni seinni vikuna. Þar sem ég áttaði mig á því að ég þurfti að gera eitthvað sem mig langaði ekki til þess að gera til þess eins að útskrifast. Fyrstu vikuna streittist ég á móti starfsfólkinu, ég var tekinn niður í gólfið og dreginn inn á herbergi þegar ég barði viðstöðulaust á hurðirnar og plexiglergluggana, mér var hótað að mér yrði gefin næring í æð ef ég borðaði ekki (sem ég neitaði að gera í mótmælaskyni), hótað að mér yrði troðið í sturtu ef ég þvoði mér ekki (sem ég neitaði að gera í mótmælaskyni).

Eftir tvær vikur af þessu helvíti útskrifaðist ég af deildinni. Þegar ég var ekki lengur nálægt þessari guðsvoluðu deild blossaði upp eldur sjálfshaturs og heiftar. Ég sór þess dýran eið að ég myndi aldrei nokkurntímann leyfa öðru fólki að ráðskast svona með mig eins og var gert þarna inni. Ég vissi upp á hár hvað ég þyrfti að gera til þess að uppfylla það markmið.

Ég fékk mömmu til að kaupa handa mér prótein og ég fór að æfa. Hvern einasta dag klukkan 06:00 var ég mættur í ræktina til þess að taka á, til þess að byggja líkamann upp í ástand sem gæti nýst í stríði. Slíkur var óttinn við að verða tekinn aftur. Ég setti upp forhertar grímur sem komust næst því að virðast eðlilegur. "Heilbrigður". Það er ekkert nema hegðunarmynstur eftir allt saman.

Í mörg ár treysti ég örfáum og átti mjög erfitt með að eignast vini, menntaskólinn skolaðist til vegna vanlíðunar, kvíða og já skapsveiflna.

Það var ekki fyrr en ég kynntist fyrrv. unnustu minni árið 2013 sem ég ákvað að fara aftur inn á geðdeild og á einhver lyf, en fyrir rest gat ég ekki samþykkt það (á þeim tíma) að þurfa mögulega að taka lyf til eilífðar nóns, til þess að halda jafnvægi.

Árið 2015 hellti ég mér út í félagastarfsemi og eftir því sem á leið árin, þá fann ég það að ég þyrfti að fara á lyf til þess að halda sönsum. Ég tók eftir því að fólk varð skringilegt og hrætt um mig á köflum vegna hegðunar sem þeim fannst vera annaðhvort öfgafull eða mjög þunglyndisleg. (Ég væri virkur í ógeðslega mörgu í einhvern tíma, en svo sæist ekki svo mánuðum skipti.) Það voru geðhvörfin að tala.

Nú eru sex ár liðin síðan ég var greindur, eftir 10 mismunandi lyf, litla sem enga hjálp frá heilbrigðiskerfinu af ráði, að þá hringdi ég einn daginn í heimilislækni og bað um endurnýjun á tilteknum lyfjum og einfaldlega byrjaði að taka þau. Á þremur mánuðum náðu þau hámarksvirkni en fram að því vann ég á sama tíma á kaffihúsi í eins miklu starfi og ég treysti mér til. Aukaverkanirnar voru drastískar en ég hafði engra kosta völ.

Ég vann 14 mánuði á þessu kaffihúsi, meirihluta þess tíma var ég haugaþunglyndur og hafði komið mér upp slatta af slæmum hegðunarmynstrum sem að gögnuðust mér lítið. Lyfin gera lítið ein og sér, án þess að taka til annarsstaðar í lífi sínu í leiðinni. Þannig að á þessum þremur mánuðum einbeitti ég mér að því að fjarlægja slæm mynstur, bæta matarræðið, fara aftur að hreyfa mig, fara til sálfræðings/einkaþjálfara til þess að fá aðeins spark í bakið og fá betri yfirsýn yfir fjármálin. Hugsaði þetta mjög lausnarmiðað og mjög markvisst (og geri enn.)


Í dag sit ég í framkvæmdaráði Pírata og svo sit ég í stjórn Grófarinnar sem varamaður.

Í maí 2019 mun ég sækja um aftur í Menntaskólanum á Tröllaskaga til þess að klára þær einingar sem ég á eftir til stúdents.

Í sumar verð ég að vinna tvær vinnur.

Að þjóna fólki eftir bestu getu er það sem ég vil helst gera, því alltaf til þjónustu reiðubúinn.

Þetta var mín batasaga

82 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page