top of page

„Sjálfsagður hlutur að stunda geðrækt rétt eins og líkamsrækt“

Höfundar eru Pálína Sigrún Halldórsdóttir og Sonja Rún Magnúsdóttir og er greinin skrifuð fyrir Geðhjálparblaðið 2021, þar sem hún birtist fyrst (gedhjalp.is).


„Af hverju líður unga fólkinu svona illa?“ er áleitin spurning sem kemur æ oftar upp í umræðum hér hjá okkur í Grófinni Geðrækt. Við fáum til okkar ráðamenn og gesti í heimsóknir sem leita eftir svari við spurningunni, og okkar unga fólk hér í Grófinni veltir þessu fyrir sér á fundum sínum innanhúss. Rannsóknir sýna svart á hvítu hvernig geðheilsu ungs fólks fer hrakandi, en orsakirnar eru ekki endilega skýrar.

Talnabrunnur landlæknisembættins 2021 greinir frá ansi sláandi niðurstöðum sem sýna fram á að andleg heilsa og líðan ungs fólks er verst meðal Íslendinga. Í tölum frá 2020 sögðu aðeins 57% karla og 50% kvenna á aldrinum 18 til 24 ára geðheilsu sína góða eða mjög góða það ár. Það er ekki nema um helmingur unga fólksins okkar. Að sama skapi greindu 32% karla og 46% kvenna í sama aldursflokki frá því að finna oft eða mjög oft fyrir streitu í daglegu lífi. Þegar einstaklingar voru spurðir út í einmanaleika sögðust 25% karla og kvenna finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika. Árið 2020 var auðvitað sérstakt vegna COVID-19, en séu skoðaðar tölur aftur til 2018 má finna sama mynstur, þar sem yngra fólki líður einfaldlega verr en eldri aldurshópum. Þetta er auðvitað ekkert séríslenskt fyrirbrigði. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) er þunglyndi ein helsta ástæða örorku á heimsvísu og sjálfsvíg næstalgengasta dánarorsök fólks á aldrinum 15-29 ára (The Lancet, 2017).

Í gögnum frá greiningardeild Tryggingastofnunar nú í september má sjá að 8.990 manns á aldrinum 18-66 ára með greinda geðröskun samkvæmt ICD-flokkunarkerfinu fá örorku- eða endurhæfingarlífeyrisgreiðslur. Það er rúmlega þriðjungur af öllum örorkulífeyrisþegum. Ungt fólk á aldrinum 18-25 ára er 10% af þeim hópi. Það ber þó að hafa í huga að geðraskanir eru samkvæmt ICD yfirflokkur sem inniber ýmsar raskanir aðrar en það sem við í daglegu tali teljum til geðræns vanda. Þar má nefna þroska- og taugaraskanir af ýmsu tagi. Þegar aldurshópurinn 18-25 ára er skoðaður með það í huga kemur í ljós að 54% þess hóps er í raun með greindan geðvanda sem aðalorsök. Það hlutfall breytist þó mikið með hækkandi aldri, en 76% þeirra sem eru á aldrinum 25-66 ára glíma þá við greindan geðvanda. Þarna má svo sannarlega greina tækifæri til að gera betur með snemmtækum íhlutunum og forvörnum.

Hlustum á ungt fólk

Fjölmiðlar sem og aðrir hafa velt upp ýmsum ástæðum fyrir þessum ógnvekjandi niðurstöðum en að okkar mati er eina rökrétta leiðin til að átta okkur á orsökunum að hlusta á unga fólkið okkar og eiga samtöl við þau og reyna að skilja. Þessi kynslóð er þeirra forréttinda aðnjótandi að hafa fengið fleiri tækifæri og dýpri kennslu en fyrri kynslóðir í því að tjá sig um tilfinningar. Sú fræðsla er þó fyrir bí ef valdhafar eru ekki tilbúnir að hlusta og velta af stað þeim samfélagslegu breytingum sem eru nauðsynlegar.

„Mikilvægur hluti starfseminnar er að vera til staðar fyrir ungt fólk sem líður ekki vel og vill rækta geðið með stuðningi jafningja.“

Lífið er stútfullt af óvissu

Við þessari áleitnu spurningu er ekkert eitt svar enda um stórt samfélagslegt mál að ræða sem þarf að skoða sem slíkt. Það er ekkert leyndarmál að ungmenni í dag virðast glíma við andlegar áskoranir í mun meira mæli en til dæmis foreldrar þeirra gerðu. Lífið er stútfullt af óvissu. Það að sinna grunnþörfunum, hvort sem maður er með greinda geðröskun eða ekki, getur tekið á. En það er það sem bætist ofan á, sem verður til þess að pressan sem ungt fólk stendur frammi fyrir í dag er því oft ofviða og ekki er nú víst að alltaf hjálpi greiningin til. Sér í lagi þar sem hún verður stundum að stimpli sem ekki er auðvelt að losna við og getur rifið í sjálfstraustið. Í þeim málum eru fleiri hliðar á teningnum en 1 og 6 og minna getur stundum verið meira. Áður fyrr voru þau börn og ungmenni sem áttu erfitt með lestur eða einbeitingu oft stimpluð „löt eða vitlaus“ án þess að vandamálið væri skoðað betur eða leitað leiða til að jafna stöðuna fyrir þau. En eins og Vilhjálmur Einarsson forðum, tókum við sem samfélag, langstökk yfir meðalveginn og lentum í landi stimpilmennsku og ofgreininga. Vandamál sem hægt væri að leysa með snemmíhlutunum eða fjölbreyttum úrræðum eru „leyst“ með lyfjum. Atvinnulífið breytist hratt, og fjölskyldulífið með því. Gerðar eru kröfur um að ljúka styttra framhaldsskólanámi og lengra háskólanámi. Leiðin inn á fasteignamarkaðinn lengist í sífellu og glansmyndir samfélagsmiðla lita væntingar okkar. Allir eiga að halda í við neyslusamfélagið en vera með bullandi samviskubit yfir því, og það er heimsfaraldur … Já, og svo er það yfirvofandi eyðilegging plánetunnar og endanleg útþurrkun mannkyns (Rachel Ramirez). Það er kannski ekki skrítið að ungu fólki finnist það oft vera að spila þrívíddarskák á taflborði gerðu úr kviksandi. Svo er aukaverkun þessa neyslusamfélags og samfélagsmiðlafárs, bæði skekkt viðmið og að foreldrar hafa færri tækifæri til að fylgjast með, vera til staðar fyrir börnin sín og efla tengslin.

Úrræðin flest fyrir neðan fossinn

Eins og Grímur Atlason nefnir í grein sinni Fyrir neðan fossinn sem kom út í tölublaði Geðhjálpar 2020 er nálgun samfélagsins að mestu leyti einkennamiðuð þegar kemur að einstaklingum með geðrænar áskoranir. Þessi úrræði vinna flest fyrir neðan fossinn, þar sem þau reyna að aðstoða fólk þegar það hefur þegar veikst og fengið tilheyrandi greiningarstimpil. Í niðurstöðum nýrrar könnunar Helgu Daggar Sverrisdóttur um líðan 200 ungra drengja á miðstigi í skólum á Akureyri kom í ljós að 28% þeirra segjast taka lyf við kvíða, ofvirkni, athyglisbresti eða svefnleysi. Það er óhugnanlega há tala og getur varla talist ásættanlegt. Helga spyr réttilega hvort ekki sé kominn tími á fræðslu til foreldra frá sérfræðingum sem greina og gefa lyf, um áhrif þeirra á vöxt og heilastarfsemi barna, aukaverkanir og ávanabindingu lyfja. Ennfremur eru aukið hrós, hreyfing og fleiri valgreinar eitthvað sem huga þarf að í meira mæli miðað við útkomu könnunarinnar. Þótt einhver fræðsla sé til staðar í skólasamfélaginu og mikilvægi geðheilsu fái meiri athygli í samfélagsumræðunni vantar upp á umræðuna. Það er ekki nóg að ræða mikilvægi þess að hafa fleiri þjónustuúrræði tengd forvörnum og snemmtækum íhlutunarleiðum. Það þarf að verða sjálfsagður hlutur að stunda geðrækt, rétt eins og líkamsrækt, áður en vandinn vindur upp á sig og verður að ástandi sem leiðir til vanvirkni og mögulega sjúklegs ástands.


Vitundarvakning sem kerfið í heild nær ekki að fylgja

Auðvitað getur hluti vandans skapast vegna þess að ungt fólk í dag hefur mun meiri aðgang að upplýsingum og fræðslu en fyrri kynslóðir og eigi því auðveldara með að setja nafn við tilfinningar sínar. Samfélagsumræðan snýr æ meira að geðheilbrigði og er orðið algengt að þekktar manneskjur segja frá vandamálum sínum í tengslum við andlega heilsu, svo ekki sé minnst byltingar á borð við #útmeðða og 39. Geðheilbrigðiskerfið virðist ekki halda í við þessa vitundarvakningu, enda erfitt að gjörbylta svo stóru og flóknu kerfi. Eins hafa foreldrar ungu kynslóðarinnar kannski ekki fengið ráðrúm til að fylgja þessu eftir og vita ekki hvernig bregðast skuli við. Það álag sem er á starfsfólki geðheilbrigðisgeirans er gríðarlegt og endalaus mannekla veldur gleymdum beiðnum, lítilli sem engri eftirfylgni og biðtímum sem eru lengri en margar meðferðir eru. Eigi manneskja ekki fyrir meðferð eða getur ekki beðið í 4-12 mánuði eftir aðstoð þurfa að vera til úrræði sem geta gripið inn í. Þar kemur þriðji geirinn inn.

Hvað getur þriðji geirinn gert til að hjálpa

Við í Grófinni Geðrækt erum hluti af þriðja geiranum svokallaða og erum staðsett á Akureyri. Við höfum sannarlega ekki öll svörin en breyting á hugmyndafræði, hugsunarhætti og vinnulagi þegar unnið er að forvörnum og endurhæfingu skiptir þar máli og er sannarlega hluti af lausninni sem þó má segja að sé ekki kerfislega samþykkt. Grófin er rekin af samnefndum félagasamtökum sem opið, gjaldfrjálst, lágþröskuldaþjónustuúrræði fyrir fólk 18 ára og eldra sem glímir við andlega erfiðleika eða afleiðingar félagslegrar einangrunar. Þýðingarmikill hluti starfseminnar eru kynningar fyrir önnur þjónustuúrræði í samfélaginu, framhalds-, grunn- og vinnuskóla en þar er alla jafna rætt um leiðir til að rækta geðið og vinna að bata sem og að fræða ungt fólk og það sem eldra er. Enn fremur er leitast við að draga úr fordómum með slíku fræðslustarfi og vinna að því að efla batamiðaða, valdeflandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu, meðal annars með virku samstarfi við stofnanir í nærsamfélaginu.

Við í Grófinni höfum lagt upp úr því að mynda tengsl við hið opinbera sem og félagasamtök til að geta veitt fólki sem fjölbreyttust tækifæri á verkefnum og virkni, sem og leiðum í átt að betri geðheilsu. Það er í raun eitt af markmiðum okkar að efla samstarf milli aðila sem vinna að bættri geðheilsu því við trúum því að samstarfið sé lykillinn að því að gera kerfið manneskjulegra og breyta því. Við höfum verið í samvinnu við geðheilsuteymi á HSN, Starfsendurhæfingu Norðurlands, Vinnumálastofnun og Virk á þessu ári og erum einnig með góðar tengingar við göngudeild geðdeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og Virkið ungmennahús. Við vitum einnig af ríkisreknum úrræðum í Reykjavík sem hafa leitað eftir samvinnu við félagasamtök á því svæði og er það vel. Það er ótrúlega mikilvægt að hið opinbera átti sig á þörfinni og áhuganum sem kemur slíkri starfsemi af stað og styðji við bakið á þessum úrræðum og hugmyndafræðinni sem leiðir starfið. Sú ástríða sem kemur þess konar starfsemi á koppinn og viðheldur henni skiptir oft höfuðmáli þegar þarf að leggja sig fram við að móta þjónustuna að þörfum þeirra sem nýta sér staðinn hverju sinni og gera það af virðingu og á jafnræðisgrundvelli. Í Grófinni ríkir ákveðið frelsi og lýðræði. Hér eru boðleiðir stuttar og auðvelt að sveigja, breyta og bæta eftir þörfum þeirra sem þurfa á að halda. Þjónusta samfélagsins við fólk með geðrænan vanda þarf að vera sem fjölbreyttust. Má þá nefna að rannsóknir hafa sýnt að þjónusta sem byggir á jafningjastuðningi eins og Grófin er ekki síður líkleg til að stuðla að bata en þjónusta sem byggir eingöngu á fagþekkingu. Sú nálgun er líka lykillinn að samtalinu við unga fólkið okkar hvort heldur sem er í starfinu hér innan Grófarinnar eða í fræðslu og forvarnarsamtölum í skólum, á vinnustöðum og í íþróttahreyfingum.


Mikilvægt að vita af úrræðum

Mikilvægt er að ungt fólk fái sem fyrst vitneskju um allar færar leiðir til að vinna sig út úr andlegum erfiðleikum. Þátttökutölur úr starfi Grófarinnar Geðræktar gefa til kynna að þörfin fyrir aðstoð sé enn að aukast sem er í samræmi við áðurnefndar tölur Landlæknisembættisins. Séu heildartölur ársins 2020 bornar saman við tölur frá fyrri hluta ársins 2021 má sjá að fjöldi heimsókna í Grófina er rétt tæplega sá sami og allt árið í fyrra. Fjöldi einstaklinga sem mæta í Grófina hefur aukist um 22% og daglegt meðaltal heimsókna hefur hækkað um 49%. Það er enn fremur hærra hlutfall yngri þátttakenda en eldri sem mæta til að kynna sér Grófina og taka þátt sem er ánægjulegt því það segir okkur að geðfræðsla og kynningarstarf skili sér út í samfélagið. Að einhverju leyti má leiða að því líkum að tölurnar undirstriki einnig mikilvægi ókeypis stuðnings fagfólks og jafningjafræðara þar sem biðtími er enginn og enga tilvísun þarf.

Við í Grófinni leggjum áherslu á að mikilvægur hluti starfseminnar sé að vera til staðar fyrir ungt fólk sem líður ekki vel og vill rækta geðið með stuðningi jafningja.

Texti: Pálína Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri og iðjuþjálfi, og Sonja Rún Magnúsdóttir, verkefnastjóri Unghuga og kynningamála

Um Grófina

Grófin Geðrækt er eini staðurinn á Norðurlandi eystra sem er að stærstum hluta notendastýrður sem tryggir að sjónarmið notenda séu virt. Í Grófinni er unnið út frá hugmyndafræði valdeflingar, bata og jafningjanálgunar. Tilgangur starfseminnar er að efla geðheilsu með geðrækt, fræða og draga úr fordómum gagnvart fólki með geðrænan vanda og efla samstarf við aðra sem vinna að sömu markmiðum. Upplýsingar: www.grofinak.is.

Heimildir

Fuhr, D.C., Salisbury, T.T., De Silva M. o.fl. (2014). Effectiveness of peer-delivered interventions for severe mental illness and depression on clinical and psychosocial outcomes: a systematic review and meta-analysis. Soc Psychiatry Epidemiol 49(1) 691-1702. DOI: 10.1007/s00127-014-0857-5.

Grímur Atlason. (2021). Fyrir neðan fossinn. Blað Geðhjálpar; 18-21. https://gamli.gedhjalp.is/radgjof-gedhjalpar/blad-gedhjalpar

Helga Dögg Sverrisdóttir. (2021, 13. september). Könnun meðal drengja á miðstigi á Akureyri. Vikublaðið. www.vikubladid.is

Rachel Ramirez. (2021, 17. september). The planet is on a 'catastrophic' global warming path, UN report shows. CNN. www.edition.cnn.com

Sigrún Daníelsdóttir, Jón Óskar Guðlaugsson og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir. (2021). Líðan fullorðinna Íslendinga árið 2020. Talnabrunnur: Fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, 15(3). Embætti landlæknis.

43 views0 comments

ความคิดเห็น


bottom of page