Reynslusögur notenda

Kæru lesendur.

Ég er búin að fylgja starfssemi Grófarinnar og þó nokkuð undirbúningi hennar. En það voru búnir að vera fundir lengi áður , annarsstaðar.  Ég vil segja, að þessi starfssemi er að gera mér mjög mikið gott. Ég var mjög passív, en ég finn í gegnum mánuðina, hvernig ég eins og leysist úr læðingi. Frábært! Og verð meira og meira “ég sjálf ” Og lífið verður dásamlegra þegar ég kemst nær mínum innsta kjarna og annarra. Ég mundi þess vegna segja að Grófin væri frábær staður til að vinna með sjálfan sig, og tala ég þá fyrir hönd fleiri. En það þýðir ekki að koma inn einu sinni og halda þá að allt sé gott! Ég ætla svo sannarlega að nýta mér þessa starfssemi áfram, sem fer þarna fram og verða frísk og fín. Ég þakka innilega það sem af er og það sem er framundan. Ég mæli eindregið með þessum stað.                                                                                    

Virðingarfyllst. NN.

Björgunarhringur

 

Haustið 2017 brann ég út, andlega og líkamlega.

 

Ég hafði verið greind þunglynd fyrir tæpum 30 árum og hafði lifað góðu lífi með lyfjagjöf og geðhjálp, þar til ég brotnaði og gat ekki meir.

 

Eftir hið "svokallaða hrun" hafði ég misst íbúð og vinnu árið 2009. Drengurinn minn, 6 ára missti hárið á tímabili. Árið 2012 fékk ég loks vinnu á Patreksfirði og þar bjuggum við sonurinn í góð 6 ár.

Seinasta haust, árið 2017 gat ég ekki meir! Þrátt fyrir góðan vilja hjá heilsugæslunni á Patró, þá var það ekki nóg. Til að gera langa sögu stutta, þá átti ég val um að flytja á höfuðborgarsvæðið eða til Akureyrar, til að fá geðheilbrigðisþjónustu.

 

Þegar ég flutti til Akureyrar varð ég í neyð minni að bakka Hjallhálsinn á flutningabíl frá Bílaleigu Akureyrar, því þar er ennþá drulluvegur og geri aðrir betur!

 

Fyrsta desember vorum við flutt til Akureyrar, ég man varla vetrarmánuðina, nema að veikburða fór ég að heimsækja Grófina. Björgunarhringurinn minn var geðverndarmiðstöðin Grófin.  Ég las grein eftir Eymund Eymundsson um starfsemi Grófarinnar á netinu og var strax vel tekið þegar ég mætti þar fárveik.

Það er algert jafningjasamfélag í Grófinni og þar fékk ég upplýsingar og þann stuðning sem ég þurfti, sem aðkomumanneskja frá Vestfjörðum.

 

Ég vil vitna í vers eftir Úlfar Ragnarsson, um leið og ég þakka Grófarstarfseminni frá hjartans rótum og hvet fólk með geðraskanir að leita til þeirra. TAKK.

 

Ég veit ekki hvort þú hefur 

huga þinn við það fest,

að fegursta gjöf sem þú gefur,

er gjöfin sem varla sést.

 

Anna Benkovic

Grófin

 

Áður en ég byrjaði að mæta í Grófina var ég með mikla fordóma gangvart þessum stað, fannst ég ekki eiga heima í „svona“ félagsskap og að ég myndi ekki samsvara mér með neinum. Eftir mikið tiltal og þrýsting lét ég til leiðast og mætti ásamt vinkonu. Þegar ég gekk inn var mér heilsað og ég fékk flotta kynningu á starfseminni. Ég settist niður eftir smá tíma og fór að stunda aðal tómstundariðjuna mína, að sitja og hlusta á fólk í kringum mig. Það sem ég met mest við Grófina er að það er ekki gerð krafa um að vera hress og kátur á daginn, maður má vera maður sjálfur og fá að koma inn í hópinn á sínum eigin hraða. Grófin er og verður oft fastur punktur í lífi þeirra sem hafa af einhverjum ástæðum farið af vinnumarkaði, maður finnur tilgang og félagsskap í rútínunni sem skapast á staðnum.

 

Ég kem þarna inn með flemturröskun sem er dagsdaglega nefnd ofsakvíði og ógreindann ADHD, ég fæ greiningu eftir smá tíma og með aðstoð þeirra sem sækja Grófina og vinnunni sem ég sjálf hef sett í sjálfa mig tókst mér að ljúka stúdentsnámi og hefja mín fyrstu skref í háskólanámi. Núna þegar ég skrifa þetta fer ég að fara af örorku og er að leita mér að vinnu sem ég get unnið til frambúðar.

Þetta og margt annað á ég Grófinni að þakka

Elísabet

Fyrir 8 árum fékk ég geðsjúkdóm sem eru geðhvörf sem hefur haft mikil áhrif á líf mitt frá því sem var.

En með því að koma og sækja Grófina hefur skipt sköpun fyrir mig að hitta fólk og fyrirbyggja félagslega einangrun. Í Grófinni hef ég alltaf mætt kærleika og vináttu og skilningi með því fólki sem þar er það er mér ómentanlegt. Eins að hafa það að stafni að geta komið á hverju degi gefið mér fasta rútinu í daginn. Ég er mjög þakklát fyrir Grófina ég veit ekki hvar ég væri ef hún væri ekki til.

Edda

Samastaður

 

Að eiga sér samastað er ekki sjálfsagður hlutur. Að geta sest niður og dregið djúpt andann og fundist maður öruggur er því miður eitthvað sem ekki allir hafa. Í hvirfilbilnum sem unglingsárin mín voru fann ég þann stað í Grófinni. Ég hafði ekki heyrt um Grófina fyrr en ég tók þátt í sjálfboðaliðaverkefni á vegum Menntaskólans á Akureyri. Við mættum þarna þrír vinir og skrifuðum strax undir trúnaðarsamning, en sá samningur virtist frekar vera formsatriði en skortur á trausti því þarna var fólkið vinveitt og tók okkur opnum örmum. Fyrsta verkefnið okkar var að taka þátt í spilakvöldi á vegum Unghuga Grófarinnar sem, eins og nafnið gefur til kynna, er hópur fyrir yngri notendur eða einfaldlega þá sem finna sig betur í þeim hópi. Það kvöld kolféll ég fyrir þessu batteríi. Þarna voru allir með troðfulla bakpoka af íþyngjandi hugsunum og vandamálum, en þetta kvöld gátum við tekið þá af okkur og hlegið saman. Þarna var í rauninni ekki aftur snúið.

            Næstu mánuði tók ég þátt í starfi unghuga og eignaðist þar góða vini sem áttu eftir að setja mark sitt á byrjun fullorðinsáranna. Áður en ég vissi af hafði ég skráð mig í forvarnarteymið sem verið var að setja saman og þar komst ég loksins út úr þrönga þægindarammanum. Ásamt hugrökku fólki hélt ég í grunnskóla Akureyrar og nágrennis og sagði mína sögu ásamt því að koma á framfæri alls kyns bjargráðum. Af öllu því sem mér hefur tekist að gera um ævina er þetta verkefnið sem ég er hvað stoltust af að hafa tekið þátt í og kæmi ég um leið og einhver bæði mig um að fylla inn í ef þyrfti. Það skemmdi auðvitað ekki fyrir að ég fékk að fara með teyminu á Neskaupsstað og sjá aðeins meira af fallega landinu okkar.

            Það er hreint ótrúlegur hlutur að vera partur af þessu litla samfélagi. Þó ég mæti ekki jafn oft og ég hefði viljað er fólkið sem ég hef kynnst þarna mér mikill innblástur á hverjum einasta degi. Að sjá fólk á öllum vegum lífsins og jafnvel á svipuðu reki og ég sjálf er gjöf sem ég tek ekki sem sjálfsögðum hlut. Við sjáum fólk vaxa og dafna, hrasa og standa upp aftur með hjálp þessa yndislega hóps. Þegar maður sest niður með ilmandi kaffibolla er alltaf stutt í gott spjall og þó fólk létti á andlegu hliðinni er alltaf stutt í brosið og jákvæðnina. Öflugt listastarf hefur verið í gangi og það er meira að segja kominn handavinnuhópur og líkamsrækt!

            Að vera partur af “Grófarliðinu” hefur kennt mér að það er í lagi að vera stundum ekki í lagi. Það er í lagi að vera leiður ef maður finnur leiðina að gleðinni aftur. Það er í lagi að biðja um stuðning og félagsskap þegar eitthvað bjátar á, og það er meira en í lagi að mæta í kaffi og sitja og þegja. Grófin kenndi mér hvað það er að vera í lagi og hvaða úrræði ég hef þegar allt er í ólagi. Grófin hefur kennt mér margt og vonandi finnur þú þinn samastað þar líka.

Sonja

Ég heiti Júlíus Blómkvist Friðriksson og var greindur með geðhvarfasýki árið 2013. 

 

Líf mitt hafði fram að því alltaf einkenst af sveiflum milli himins og heljar. Ég var mjög skrýtinn sem krakki, las mikið, átti afar fáa vini og frekar einmana oft á tíðum. Ég ólst upp við mikla streitu sem orsakaðist af ósætti milli móður og föður sem varði í mörg ár. Ýmislegt slæmt gerðist þegar ég var mjög ungur, eitthvað sem ég mun ekki endilega reifa hér, sem hafði töluverð áhrif á mig og gerir enn þann dag í dag. Allt of mikilli ábyrgð var skellt á herðar 7 ára gamals barns og þegar ég var 13 var ég búinn að koma mér upp allskonar skrýtnum hegðunarmynstrum til þess að díla við einmanleikann og kvíðann. 

 

Ég fór í mjög langar sturtur, skipti um föt þegar ég fór inn og út úr húsi. Ég trúði því að herbergið mitt væri minn griðarstaður og sóttkví. Ég sprittaði oft á mér hendurnar og var virkilega sýklahræddur. Ég var hræddur við að fitna þess fyrir utan og borðaði mjög sérstakt fæði og laug til um hvað ég borðaði og hvenær. Ég átti líka einstaklega erfitt með að tjá mig um hvernig mér leið, ég var og er einstaklega góður í að feika það. 

 

Fyrst var mér beint til námsráðgjafa, því næst til sálfræðings og eftir það var það félagsráðgjafi þar sem okkur mömmu var bent á að fara suður í "stöðuviðtal" á BUGL. Þetta umrædda stöðuviðtal reyndist vera ekki neitt annað en neyðarinnlögn sem var ákveðin af yfirvaldinu. Hvorugt foreldra minna hafði neitt vald til þess að útskrifa mig. Þarna varð ég að dúsa á læstri deild meðal brosandi starfsmanna sem létu eins og ekkert hafði í skorist. Mér fannst ég vera bara eitthvað dýr í búri.

 

BUGL, á þeim tíma sem ég var þarna inni gekk út á eitt prinsipp: "Ef þú drullast ekki til þess að fylgja prógramminu þá kemstu aldrei héðan út." Áralöng æfing í því að hagræða aðstæðum eftir mínu höfði og það að leika einhver hlutverk komu að góðu gagni seinni vikuna. Þar sem ég áttaði mig á því að ég þurfti að gera eitthvað sem mig langaði ekki til þess að gera til þess eins að útskrifast. Fyrstu vikuna streittist ég á móti starfsfólkinu, ég var tekinn niður í gólfið og dreginn inn á herbergi þegar ég barði viðstöðulaust á hurðirnar og plexiglergluggana, mér var hótað að mér yrði gefin næring í æð ef ég borðaði ekki (sem ég neitaði að gera í mótmælaskyni), hótað að mér yrði troðið í sturtu ef ég þvoði mér ekki (sem ég neitaði að gera í mótmælaskyni). 

 

Eftir tvær vikur af þessu helvíti útskrifaðist ég af deildinni. Þegar ég var ekki lengur nálægt þessari guðsvoluðu deild blossaði upp eldur sjálfshaturs og heiftar. Ég sór þess dýran eið að ég myndi aldrei nokkurntímann leyfa öðru fólki að ráðskast svona með mig eins og var gert þarna inni. Ég vissi upp á hár hvað ég þyrfti að gera til þess að uppfylla það markmið. 

 

Ég fékk mömmu til að kaupa handa mér prótein og ég fór að æfa. Hvern einasta dag klukkan 06:00 var ég mættur í ræktina til þess að taka á, til þess að byggja líkamann upp í ástand sem gæti nýst í stríði. Slíkur var óttinn við að verða tekinn aftur. Ég setti upp forhertar grímur sem komust næst því að virðast eðlilegur. "Heilbrigður". Það er ekkert nema hegðunarmynstur eftir allt saman. 

 

Í mörg ár treysti ég örfáum og átti mjög erfitt með að eignast vini, menntaskólinn skolaðist til vegna vanlíðunar, kvíða og já skapsveiflna.

Það var ekki fyrr en ég kynntist fyrrv. unnustu minni árið 2013 sem ég ákvað að fara aftur inn á geðdeild og á einhver lyf, en fyrir rest gat ég ekki samþykkt það (á þeim tíma) að þurfa mögulega að taka lyf til eilífðar nóns, til þess að halda jafnvægi. 

 

Árið 2015 hellti ég mér út í félagastarfsemi og eftir því sem á leið árin, þá fann ég það að ég þyrfti að fara á lyf til þess að halda sönsum. Ég tók eftir því að fólk varð skringilegt og hrætt um mig á köflum vegna hegðunar sem þeim fannst vera annaðhvort öfgafull eða mjög þunglyndisleg. (Ég væri virkur í ógeðslega mörgu í einhvern tíma, en svo sæist ekki svo mánuðum skipti.) Það voru geðhvörfin að tala. 

 

Nú eru sex ár liðin síðan ég var greindur, eftir 10 mismunandi lyf, litla sem enga hjálp frá heilbrigðiskerfinu af ráði, að þá hringdi ég einn daginn í heimilislækni og bað um endurnýjun á tilteknum lyfjum og einfaldlega byrjaði að taka þau. Á þremur mánuðum náðu þau hámarksvirkni en fram að því vann ég á sama tíma á kaffihúsi í eins miklu starfi og ég treysti mér til. Aukaverkanirnar voru drastískar en ég hafði engra kosta völ. 

 

Ég vann 14 mánuði á þessu kaffihúsi, meirihluta þess tíma var ég haugaþunglyndur og hafði komið mér upp slatta af slæmum hegðunarmynstrum sem að gögnuðust mér lítið. Lyfin gera lítið ein og sér, án þess að taka til annarsstaðar í lífi sínu í leiðinni. Þannig að á þessum þremur mánuðum einbeitti ég mér að því að fjarlægja slæm mynstur, bæta matarræðið, fara aftur að hreyfa mig, fara til sálfræðings/einkaþjálfara til þess að fá aðeins spark í bakið og fá betri yfirsýn yfir fjármálin. Hugsaði þetta mjög lausnarmiðað og mjög markvisst (og geri enn.) 

 

Í dag sit ég í framkvæmdaráði Pírata og svo sit ég í stjórn Grófarinnar sem varamaður.

Í maí 2019 mun ég sækja um aftur í Menntaskólanum á Tröllaskaga til þess að klára þær einingar sem ég á eftir til stúdents.

Í sumar verð ég að vinna tvær vinnur. 

 

Að þjóna fólki eftir bestu getu er það sem ég vil helst gera, því alltaf til þjónustu reiðubúinn.

 

Þetta var mín batasaga

Grófin Geðrækt 

Hafnarstræti 95, 4 hæð
600, Akureyri 

Sími: 462-3400

Email: grofin@outlook.com

© 2020 Grófin, unnið með Wix vefsíðugerð