Wild Nature

Dagskrárliðir

Skýringar á dagskrárliðum Grófarinnar. Hér geta flestir fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Geðrækt - bati

Umsjón: Pálína 

Innlegg, verkefni og umræða tengd geðrækt, bata og lífsgæðum. Umræða fundar er valin út frá batamódeli Daniel Fisher og L. Ahern (www.power2u.org) og ýmsu sem hjálpar okkur að rækta geðið og bæta heilsuna. Virðing og trúnaður eru skilyrði.

Zumbafjör

Umsjón: Pálína og Gerður

Gerður Zumba og kundalini jógakennari leiðir okkur í skemmtilega og nærandi hreyfingu á Hamarskotstúninu (við Þórunnarstræti og Hamrasstíg). Gengið er frá Grófinni kl 11:15 en einnig er hægt að mæta beint á túnið og hitta hópinn þar Gerður mætir með tónlistina, zumbasporin og geislandi orkuna sína og zumbadansinn, en leiðir okkur einnig í gegnum Teygjur, hugleiðslu og slökun. Fjölbreyttir tímar með fókus á líkamlega og andlega vellíðan og gleði. Njótum veðurblíðunnar í góðum félagsskap.

Hlúðu að sjálfri þér - konuhópur

Konur í Gróf skapa kvennasamfélag þar sem þær gera skemmtilega og nærandi hluti saman einnig utan Grófar. Allt sem við gerum saman miðar að því að auka vellíðan í eigin skinni og skapa góð félagsleg tengsl sín á milli. Hópurinn getur ákveðið að reyna nýja hluti saman, verða sér úti um ákveðna þekkingu, fara út í samfélagið sér til skemmtunar osf. Hópurinn mótar starfsemina saman jafnóðum. 

Sjálfsefling - valdefling (empowerment)

Umsjón: Friðrik

Innlegg funda er tengt sjálfseflingu. Á fundunum er unnið út frá valdeflingarhugmyndafræðinni og til viðmiðunar höfð 15 atriði valdeflingar (frá Judi Chamberlin). Valdefling er í grunninn sjálfsefling – að ná tökum á eigin lífi með því að taka ábyrgð á eigin bata í samstarfi við aðra notendur og fagaðila. Valdeflandi samskipti stuðla að því að fólk hafi vald yfir aðstæðum sínum og lífi. Sú tilfinning eflir sjálfsvirðingu, sjáflsákvörðunarrétt, sjálfsmat og félagstöðu þeirra sem vinna saman að sjálfseflingu.  Virðing og trúnaður.

Unghugar

Umsjón: Sonja og henni til aðstoðar eru Júlíus Blómkvist og Fjörnir Helgi.

Á fundum Unghuga eru tekin fyrir umhyggja og valdefling

Umhyggjuhringur - þar sem fólk fær að opna sig svolítið, kynna sig og jafnvel pústa um það sem er að plaga það - stuðningur.

Verkfæri til sjálfeflingar -  Við tökum fyrir verkefni sem snýr sérstaklega að sjálfsvinnu, bata og valdeflingu

Á fimmtudögum eru svo viðburðir en tímasetningar þeirra eru ákveðnir á meðal Unghuga. Unghugafundir hefjast 20.1.2021.

Umhyggjuhópur

Umsjón: Friðrik, Brynjólfur eða Sigurður Gísli.​

Vettvangur þar sem fólk getur tjáð sig um allt sem því liggur á hjarta og deilt reynslu sín á milli. Virðing og trúnaður eru skilyrði, sem og í öðrum hópum.

Virknihornið

Umsjón: Hulda Berglind

Virkni hornið er hugsað fyrir þá sem vilja efla sig í virkni. Í virkni horninu er fólk hvatt til  að reyna nýja hluti, prófa sig áfram og finna styrkleika sína. Skemmtileg og krefjandi verkefni verða í boði. Fyrirkomulagið verður þannig að ákveðið er fyrirfram hvaða verkefni eru kennd hverju sinni en síðan er hægt að nýta það efni sem Grófin á eftir því sem hverjum og einum hugnast best. Samvera og vinna í hópnum snýst um að sýna áhuga og ekki vera feiminn að koma með nýjar og skemmtilegar hugmyndir sem hópurinn getur unnið með áfram.

Einnig er hægt að vinna samvinnuverkefni (hekl, prjón og púsl) og koma með sitt eigið verkefni. 

Kjarnafundur

Kjarnafundur Grófarfélaga. Umsjón – allir​

Þátttaka í kjarnafundum er ætluð þeim sem eru virkir þátttakendur í Grófarstarfinu og hafa skráð sig á þar til gert þátttökublað Grófarinnar . Fundirnir eru hjartað í okkar starfi. Á fundunum eru teknar ákvaðanir um starfssemina. Þátttakendur geta sett mál á dagskrá sem rædd eru á fundinum. Allir hafa sinn atkvæðarétt til að taka afstöðu til mála.

Hópstjóra- og hlutverkafundir

Umsjón: Pálína og Friðrik

Hópstjórar og þeir sem gegna hlutverki í Grófinni hittast og fara yfir stöðuna.

Í sumar eru þessir fundir boðaðir í messengergrúppu.

Hreyfing í Eflingu

Umsjón: Hannes sjúkraþjálfari (Ekki í boði sumarið 2021)

Föstudagfjör í ræktinni. Góður þrekhringur með Hannesi sjúkraþjálfara sem er á staðnum og leiðbeinir hverjum og einum með æfingar eftir þörfum. (Þessi dagskrárliður er í biðstöðu sökum covid).

English talk circle

Supervision: Richard

Self-help group where people can talk about their issues in an atmosphere of understanding and confidentiality. The members of the group are international and therefore the main language used in meetings is English.

Spilakvöld

Umsjón: Richard og Fanney

Hópurinn spilar með svipað þenkjandi fólki. Leikir og spil verða mismunandi og munu ýmist reyna á hæfni og/eða efla hvern spilara fyrir sig hvað varðar sköpunargáfu, lausnamiðaða hugsun, að vinna í hóp, og auka þolinmæði og seiglu.

 

Supervision: Richard and Fanney

The group plays games with like-minded people. Different games are played that might challenge each player's different skillsets, whether it revolves around problem-solving, creativity, working as a group, patience or resilience. 

Gönguhópur

Umsjón: Friðrik

Stuttar gönguferðir í góðum félagsskap. Hristum af okkur slenið og frískum okkur upp og tökum góðar teygjur í lokin.

Litaslökun

Umsjón: Hulda Berglind
Við byrjum daginn á rólegu nótunum. Í byrjun er tekin slökunaræfing, hugleiðsla eða núvitund í 5-10 mínútur. Síðan drögum við upp liti og blöð og leyfum litunum að flæða um blaðið á meðan við hlustum á fallega tóna eða hlustum á hjóðbók. Litaslökunin er hugsuð sem streitulosun í upphafi dags, en einnig sem ánægjuleg sköpunarstund fyrir barnið innra með okkur. Leyfilegt er að koma með t.d. prjóna, hekl og eigin verkefni, svo framarlega sem þau raska ekki ró annarra þátttakenda.