Sjálfboðaliðar

Sjálfboðavinna

Sem notendastýrð samtök stólum við á að allir leggi hönd á plóg þegar kemur að daglegum rekstri Grófarinnar. Í gegnum tíðina höfum við fengið ómetanlega hjálp frá bæði þátttakendum og utanaðkomandi aðilum og erum við þakklát fyrir öll þau sem hafa styrkt okkur með vinnu sinni. Við erum alltaf að leita að aðilum til að aðstoða okkur við að annast tilfallandi verkefni svo við getum haldið áfram að þróa og rækta starfið og þannig stutt við sem flesta. Vinnan felur í sér tækifæri til að efla sjálfan sig og getur í senn verið gefandi og krefjandi. Við hvetjum einstaklinga til að koma með nýjar hugmyndir og stinga upp á verkefnum sem henta starfseminni okkar. Vinnutímar eru almennt sveigjanlegir en sjálfboðaliðar eru beðnir um að skuldbinda sig upp að vissu marki.

Það sem felst í starfinu

Ýmis tilfallandi verkefni falla í hendur sjálfboðaliða okkar, meðal annars að taka á móti fólki sem er að koma í fyrsta sinn, svara síma, sjá um eldhúskrókinn og passa að nóg sé af kaffi og því fram eftir götum. Aðrar leiðir til að leggja sitt af mörkum er að taka þátt í þrifum, aðstoða við viðburði, vera hópstjóri og spjalla við og styðja einstaklinga sem leita í Grófina. Þetta er mjög fjölbreytt starf og hægt er að finna verkefni sem henta flestum.

Við krefjumst þess af öllum sem taka þátt í starfseminni á einhvern hátt að þau haldi trúnað og sýni bæði fólki og félaginu virðingu.

Ef þú hefur áhuga á því að ganga til liðs við okkur, sendu okkur póst á grofinak@grofinak.is!