
Geðfræðsla

Geðfræðsluteymi Grófarinnar 2017-2018: Frá vinstri: Eymundur, Elí, Emma, Inga
Hvernig byrjaði geðfræðslan ?
Geðfræðsla Grófarinnar hóf göngu sína árið 2014 undir stjórn Eymundar Eymundssonar sem þá hafði þegar öðlast reynslu af slíkri vinnu hjá Hugarafli á höfuðborgarsvæðinu. Sumarið 2014 var farið í vinnuskóla Akureyrarbæjar og um haustið tekið þátt í forvarnardegi grunnskólanna á Akureyri.
Geðfræðsla Grófarinnar hefur verið fastur liður í skólastarfi grunnskólanna frá árinu 2015 en byrjað var á að fræða starfsfólk og kennara skólanna en síðan nemendur 9. bekkja. Einnig hafa nemendur í framhaldsskólunum MA og VMA fengið fræðslu. Geðfræðslan spurðist út sem leiddi til þess að geðfræðsluteymið fékk tækifæri á að fara með fræðslu í nærsveitarfélag en einnig Norðfjörð, Ísafjörð og Bolungavík. Það hefur í senn eflt fólkið sem fræðir að láta gott af sér leiða en einnig verið mikilvægt innlegg í geðfræðslu ungmenna að fá að heyra sögur fólks sem glímt hefur við erfiðleika af geðrænum toga og náð bata. Slíkt hefur gefið góða raun ekki síst í glímunni við að minnka fordóma og hefur það einnig sýnt sig að ekkert virkar jafnvel og milliliðalaus samskipti sé markmiðið að draga úr fordómum gagnvart fólki með geðrænan vanda (Stuart o. fl., 2014). Ennfremur fá ungmennin mikilvæg svör við spurningum sem aldrei hefur verið þor til að spyrja og líkur á að þau bregðist við eigin vanda eða annarra aukast í stað þess að lifa í þögn og hræðslu.
Hverjir fræða, hvernig og af hverju ?
Mikilvægt er að ungmenni fái fræðslu um geðrænan vanda vegna þess að algengast er að slíkur vandi komi fram fyrir 25 ára aldur (Sigrún Daníelsdóttir, 2017). Í geðfræðsluteyminu eru einstaklingar sem hafa öll persónulega reynslu af geðrænum vanda og árangursríku bataferli. Þau hafa tekið þátt í faglegu undirbúningsstarfi og þjálfun fyrir fræðsluna og hafa undirgengist siðaregur Grófarinnar.
Geðfræðslan fer þannig fram að tveir einstaklingar úr Grófinni fara í skólana, segja frá sinni persónulegu reynslu af geðrænum vanda, gefa innsýn í það hvernig þeim leið en leggja áherslu á bataferli, bjargráð og hve mikilvægt sé að bregðast við geðrænum vanda. Einnig er þátttakendum í fræðslunni bent á hvar megi leita stuðnings í umhverfinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig nafnlaust um fræðsluna og spyrja spurninga. Hugsjónin er að ungmenni átti sig á að geðrænn vandi er ekkert til að skammast sín fyrir og þau leiti sér aðstoðar þegar þess er þörf. Einnig viljum við hvetja foreldra og forráðamenn til að eiga samræður við börn og ungmenni um geðheilsu.
Nemendur hafa fengið tækifæri til að spyrja nafnlausra spurninga eða senda okkur nafnlaus skilaboð á miðum sem þau fá við byrjun fyrirlestursins. Hér eru nokkur dæmi um það sem nemendur hafa skrifað til okkar:
Ég er sterkur og mun komast í gegnum kvíðann
Hvernig brugðust fjölskyldur ykkar við þegar þið sögðuð þeim frá þessu?
Hvar fenguð þið fyrst hjálp? Hvernig líður ykkur núna?
Í dagsdaglegu lífi hversu erfitt myndirðu segja að það væri að vera bipolar eða þunglyndur?
Hæ! ég hef enga spurningu en takk fyrir þessa fræðslu, en hún var mjög flott. Ég er frábær manneskja.
Það er gott að sjá að fólk geti lifað eðlilegu lífi með geðsjúkdóm.
Það er svo skrýtið að við erum alltaf að taka á afleiðingum í staðinn fyrir að byrja á grunninum og gefa ungmennum tækifæri á að byggja sig upp í staðinn fyrir að bíða þangað til í óefni er komið sem getur orðið of seint. Að það sé margra mánaða bið eftir að komast að hjá skólasálfræðingi neyðir oft foreldra til að kaupa þjónustu. Hver maður sér að það kostar mikið og margir hafa ekki efni á því. Mörg ungmenni eiga erfitt með sín andlegu veikindi eða vanlíðan og við teljum að þetta myndi ekki líðast ef um önnur veikindi væri að ræða. Við læknum ekki allt með lyfjum heldur vantar skilning og stuðning frá samfélaginu sem og ráðamönnum til að þessi börn og ungmenni fái strax hjálp. Það sparar að taka á vandanum strax en kostar tvöfalt meira ef menn ætla alltaf að fresta vandanum.
Heimildir:
Sigrún Daníelsdóttir (2017). Geðheilsan verður til í æsku. Sótt af https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item32132/gedheilsan-verdur-til-i-aesku
Stuart, H., Chen, S., Christie, R., Dobson, K., Kirsh, B.... og Whitley, R. (2014). Opening Minds in Canada: Targeting Change. The Canadian Journal of Psychiatry, 59 (viðauki 1), bls 13-18. Sótt af https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/25565705