top of page

Geðfræðsla

Hvernig byrjaði geðfræðslan ?

 

Geðfræðsla Grófarinnar hóf göngu sína árið 2014 undir stjórn Eymundar Eymundssonar sem þá hafði öðlast reynslu af slíku starfi hjá Hugarafli í Reykjavík. Geðfræðsluteymi Grófarinnar hefur farið með fræðslu fyrir vinnuskóla Akureyrarbæjar, framhaldsskólana MA og VMA ásamt grunnskólum Akureyrarbæjar. Teymið hefur reyndar teygt anga sína út fyrir Eyjafjörð og vegna eftirspurnar var farið með fræðslu til Neskaupsstaðar, Ísafjarðar og Bolungavíkur. Einnig hefur teymið farið með samfélagsfræðslur fyrir foreldra, kennara og aðstandendur í ýmsum bæjarfélögum. Innan Eyjafjarðar, hefur geðfræðslan verið fastur liður í skólastarfi grunnskóla Akureyrarbæjar frá árinu 2015 þó hlé hafi orðið á starfinu í tvo vetur vegna heimsfaraldurs.  

356804900_641848947861621_7638708276453047117_n.jpg

Geðfræðsluteymið veturinn 2022-2023: Agnes Ýr, Elín Ósk, Helgi Már, Sigurður Gísli, Sonja Rún og Inga María

Hverjir eru í geðfræðsluteymi Grófarinnar?

Teymið samanstendur af bæði starfsmönnum og notendum Grófarinnar. Hvert haust eru valdir tveir forsjármenn til að bera ábyrgð á starfinu og halda utan um teymið í heild sinni sem þó starfar alltaf á jafningjagrundvelli. Að vísu ber að nefna að ákveðin skilyrði þarf að uppfylla til að vera meðlimur geðfræðsluteymisins og vera fær um að deila sinni batasögu. Enda skiptir öllu máli að vera sjálfur í góðu jafnvægi áður en hægt er að gefa af sér með þessum hætti.  

Hvernig fer geðfræðslan fram?

Geðfræðslan er ávallt sniðin að markhópnum en það geta meðal annars verið grunnskólanemendur, framhaldsskólanemendur eða fullorðnir einstaklingar á vinnumarkaðnum. Til að byrja með innihélt fræðslan tvær batasögur einstaklinga úr teyminu þar sem markmiðið var að veita innsýn í geðrænar áskoranir, bataferli og bjargráð. Haustið 2022 var fyrirkomulaginu breytt lítillega. Nú skiptist fræðslan í tvo hluta, annars vegar er talað almennt um geðheilsu, geðrækt og tilfinningar. Í hinum hlutanum deilir notandi Grófarinnar sinni persónulegu reynslu af andlegum veikindum og segir frá því hvernig hann/hún náði bata. Síðan taka við spurningar, umræður og frekari vangaveltur en útfærsla á því fer eftir aldri og þroska markhóps. 

 

Nemendur í grunn- og framhaldsskólum hafa til að mynda fengið tækifæri í fyrri fræðslum til að spyrja nafnlausra spurninga og hér má sjá nokkur dæmi.  

Ég er sterkur og mun komast í gegnum kvíðann

Í dagsdaglegu lífi hversu erfitt myndirðu segja að það væri að vera bipolar eða þunglyndur?

Hversu illa þarf mér að líða til að því sé tekið alvarlega?

Eru andleg veikindi eitthvað hættuleg?

Þetta var mjög fræðandi og gott að fá svona fræðslu

Hvar fenguð þið fyrst hjálp? Hvernig líður ykkur núna?

Það er gott að sjá að fólk geti lifað eðlilegu lífi með geðsjúkdóm.

Hvert er markmð geðfræðslunnar?

Markmiðið með þessu starfi er að auka þekkingu fólks í samfélaginu á geðheilsu, geðrækt og geðrænum vanda. Einnig að opna umræðuna um þessi málefni og draga úr fordómum gagnvart fólki sem glímir við geðræn veikindi. Rannsóknir hafa líka sýnt það að ekkert virkar jafnvel og milliliðalaus samskipti með þetta markmið að leiðarljósi (Stuart o.fl., 2014). Tilgangur verkefnisins er aftur á móti ekki einungis að upplýsa heldur jafnframt að hvetja einstaklinga til að leita sér hjálpar ef þörf er á. Þá kemur fram í öllum geðfræðslum hvað hægt er að gera til að bregðast við erfiðum tilfinningum og hvert ber að leita ef þörf er á faglegri aðstoð. Von okkar er að einstaklingar upplifi síður skömm vegna eigin vanlíðan, fái svör við ýmsum spurningum og að hægt verði að grípa fyrr inn í málin þegar geðrænn vandi er til staðar.  

Heimildir:

Stuart, H., Chen, S., Christie, R., Dobson, K., Kirsh, B.... og Whitley, R. (2014). Opening Minds in Canada: Targeting Change. The Canadian Journal of Psychiatry, 59 (viðauki 1), bls 13-18. Sótt af https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/25565705

bottom of page