top of page
Mountain Lake

Valdefling

Valdefling er huglæg tilfinning sem ýtir undir sjálfsákvörðunarrétt, sjálfsvirðingu og sjálfsmat ásamt því að hafa áhrif á félagsstöðu

Að upplifa sig í erfiðum aðstæðum þar sem maður upplifir sig valdalausan. Að finna fyrir máttleysi og þeirri trú að maður geti ekki neitt festir fólk í vissum fjötrum. Ein forsenda þess að ná aftur bata er að endurheimta  trú á eigin getu til þess að geta tekist á við vandamálin í samfélagi jafningja. 

Valdefling snýst um að öðlast vald til að geta haft áhrif á þá þjónustu sem við fáum og líka til að öðlast innra vald til að geta sagt og vitað hvað við viljum. Markmiðið er að læra hvernig maður getur tekið ákvarðanir um eigið líf. Hugtakið tengist lýðræði og valdi einstaklingsins yfir eigin lífi og umhverfi, og eru einstaklingar hvattir til að finna eigin kraft svo þeir geti unnið að velferð sinni og hámörkun lífsgæða.

Valdefling snýst um að breyta sjálfsskilningi, eða sjálfsvitund þeirra sem þurfa á einhvers konar aðstoð að halda, að þeir sjái sig sem einstaklinga sem hafa rétt til að bregðast við þjónustuveitendum, skipulagi og stjórnun þjónustunnar, aðstoðinni sem þeir fá og því lífi sem þeir kjósa að lifa. Þetta hefur einnig áhrif á það að starf Grófarinnar fer fram á jafningjagrundvelli, við aðstoðum hvert annað við að finna okkur sjálf.

Women Holding Hands
Af hverju valdefling?
Untitled design (3).png

Aukið vald yfir eigin lífi

Samkvæmt hugmyndafræði Valdeflingar verður alltaf að vera til staðar vonin/trúin á bata, ef þú trúir því ekki þá gerist það ekki.

Untitled design (5).png

Aukið sjálfstæði

Hugtakið valdefling tengist lífsgæðum og mannréttindum. Við þurfum að búa til aðstæður/umhverfi sem styðja valdeflingu

Untitled design (6).png

Þátttaka í samfélaginu

Valdefling er huglæg tilfinning, sem í gegnum tengsl, ýtir undir sjálfsákvörðunarrétt, sjálfsvirðingu og sjálfsmat, ásamt því að hafa áhrif á félagsstöðu

Judi Chamberlin (f. 1944), upphafskona valdeflingar var framsækinn frumkvöðull á sínu sviði og byggði hún hugmyndafræðina á eigin reynslu af geðheilbrigðiskerfinu, verandi notandi þess. Hún var þeirrar skoðunar að læknisfræðilega módelið, sem enn er ríkjandi nálgun að geðheilbrigði, passaði einfaldlega ekki við þarfir allra sem þurfa hjálp við að takast á við andlegar áskoranir. Hún lagði ríka áherslu á virðingu og að hafa vald yfir eigin lífi.

     Judi er meðstofnandi Ruby Rogers Advocacy and Drop-In Center og skrifaði bókina On Our Own: Patient controlled alternatives to the mental health system ásamt því að skrifa fjölda greina um hreyfinguna, sjálfshjálp og réttindi notenda. 

judi.jpg

Judi Chamberlin

Það eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga í valdeflingarferlinu

Valdefling á sér stað í gegnum:

•Samvinnu milli einstaklinga í sömu aðstöðu, t.d einstaklingar með geðsjúkdóm

•Samvinna milli fagaðila og einstaklings

•Innbyrðis sjálfsþekkingu

•Fagfólk og þekkingu þeirra

Valdefling á sér stað í samskiptum:

•Persónulegur stuðningur

•Náin samskipti

•Lipurð

•Jafnræði

•Virðing

15 punktar valdeflingar

1. Vald til ákvarðanatöku: enginn getur öðlast sjálfstæði ef hann fær ekki tækifæri til að taka mikilvægar ákvarðanir um eigið líf! Margir fagmenn gera oft ráð fyrir því að notendur séu ófærir um að taka “réttar” ákvarðanir. Að vinna saman á jafningjagrundvelli gefur manni færi á að taka þessar ákvarðanir sjálfur.

2. Greiður aðgangur að upplýsingum og úrræðum: orðið valdefling felur í sér að hafa vald til þess að taka ákvarðanir sjálfur, hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum og læra að hugsa á gagnrýninn hátt svo hægt sé að hafa áhrif á eigið líf og efla jákvæða sjálfsmynd sína ásamt því að vinna bug á fordómum.

3. Valkostir: að fá að velja. Oft er litið á það þannig að það sé nóg að geta aðeins nýtt sér eitthvað eitt úrræði eða geta valið á milli tveggja kosta, en það einfaldlega hentar ekki alltaf. Þetta er eins og að fá að velja á milli þess að fara í keilu eða sund, sem eru bara góðir kostir ef mér finnst annað hvort skemmtilegt. Ef mér líkar hvorugt eru þetta frekar aumir kostir.

4. Efling ákveðni: fólki sem ekki hefur verið greint með geðsjúkdóm er oft hampað fyrir þennan eiginleika en notendur sem sýna ákveðni eru oft stimplaðir sem stjórnsamir og erfiðir og maður jafnvel missir þennan eiginleika. Með valdeflingu er gert í því að efla hann.

5. Vekja væntingar um eigin áhrifamátt: að vera vongóður! Von er ómissandi liður í skilgreiningu    okkar. Manneskja sem er vongóð og trúir á möguleikann á breytingum og framförum í framtíðinni er líklegri til árangurs.

6. Hugsa á gagnrýninn hátt: að komast upp úr hjólförunum, að sjá hluti á annan hátt.

7. Læra um reiði og tjá hana: fagmenn telja oft að notendur sem láta reiði í ljós séu að „missa tökin” eða eru „stjórnlausir.” Það á jafnvel við þegar reiðin er réttmæt og væri talin það ef „venjuleg” manneskja léti hana í ljós. Reiði getur verið nothæf ef maður lærir að þekkja það þegar hún er réttmæt og lærir að láta hana í ljós, sem tengist líka svolítið ákveðninni.

 

8. Upplifa sig sem hluta af hóp: að finnast maður ekki vera einn. Hópefli er afar mikilvægur þáttur valdeflingar.

9. Þekkja réttindi sín: að skilja að fólk hefur réttindi.

10. Hafa áhrif á breytingar sem eiga sér stað í eigin lífi: valdefling er meira en tilfinning, við lítum á slíkt sem undanfara framkvæmda. Þegar manneskja kemur breytingu af stað eykst sjálfstraust hennar og það leiðir af sér frekari og áhrifameiri breytingar.

11. Tileinka sér nýja hæfileika: að tileinka sér nýja hæfileika sem einstaklingurinn telur mikilvæga. Maður sjálfur þarf að velja hvaða hæfileikar eru þess virði að tileinka sér og eru mikilvægir fyrir mann sjálfan.

12. Breyta skynjun annarra á eigin hæfni og getu til athafna: oft ákveður samfélagið að þeir einstaklingar sem eiga við andlegar áskoranir að stríða séu vanhæfir. En þegar einstaklingur verður færari um að taka stjórnina í eigin lífi sýnir hann þannig hversu líkur hann er „venjulega fólki” í grundvallaratriðum.

13. Koma út úr skápnum: hugtak sem við höfum fengið að láni frá hreyfingu samkynhneigðra. Fólk sem er með skerta samfélagsstöðu en getur falið það, velur oft að gera það. Þetta getur hins vegar valdið lélegra sjáflstrausti og ótta, en þeir einstaklingar sem ná þessum áfanga geta svipt hulunni af kringumstæðum sínum og sýnt þannig sjálfstraust.

14. Stuðla að viðvarandi þroska og breytingum: valdefling er ekki endastöð, heldur ferðalag.

15. Efla jákvæða sjálfsmynd og vinna bug á fordómum: eftir því sem valdefling einstaklingsins eykst fer hann að finna fyrir auknu sjálfsöryggi og aukinni trú á eigin getu.

 

Útdráttur úr greininni „A Working Definition of Empowerment” eftir Judi Chamberlin.
http://www.power2u.org/articles/empower/working_def.html
þýtt af Björgu Torfadóttur, meðlimi Hugarafls

bottom of page