Skýring dagskrárliða

Geðrækt I
Umsjón: Pálína og Agnes
Innlegg, verkefni og umræða tengd geðrækt, lífsgæðum, bataferli og batavinnu
Viðfangsefni fundanna er tengt batamódeli Daniel Fisher og L. Ahern (www.power2u.org) um batavinnu og bataferli.
Í Geðrækt I á vorönn verður m.a. unnið með venjur, rútínur, hlutverk, áhugamál og fleiri iðjutengda þætti. Fundarefni er að finna á plani í Grófinni og auglýst í hóp Grófarfélaga í hverri viku.
Virðing og trúnaður eru skilyrði.

Kjarnafundur
Umsjón: Allir - Agnes tekur við fundarefnum
Húsfundur Grófarfélaga.
Þátttaka á kjarnafundum er ætluð virkum þátttakendum í Grófarstarfinu og hafa skráð sig á þar til gert þátttökublað Grófarinnar. Fundirnir eru hjartað í okkar starfi. Á fundum eru teknar ákvaðanir um starfssemina, en þeir byggja á málum sem þátttakendur setja á dagskrá. Allir Grófarfélagar geta sett mál á dagskrá og hafa atkvæðarétt til að taka afstöðu til mála. Málefnum á fund skal komið til Agnesar iðjuþjálfa.

Virknihornið
Vilt þú efla þig í virkni og sköpun?
Fólk er hvatt til að reyna nýja hluti, prófa sig áfram og finna styrkleika sína. Tilgangur hópsins er að auka virkni í daglegu lífi og efla sig félagslega. Skemmtileg verkefni eru í boði ásamt kennslu í fyrirfram auglýstum verkefnum en einnig er hægt að nýta það efni sem til er eftir því sem þátttakendur vilja. Samvera og vinna í hópnum snýst um að sýna áhuga og að koma með nýjar og skemmtilegar hugmyndir. Einnig má koma með sín eigin verkefni.
Umsjón: Hulda Berglind og Agnes

Göngutúr
Umsjón: Friðrik
Stuttar gönguferðir í góðum félagsskap
Hristum af okkur slenið, frískum okkur upp og tökum góðar teygjur í lokin.

Unghugar
Umsjón: Sonja ásamt skemmtinefnd
Félagsskapur ungs fólks á aldrinum 18-30 ára.
Fundir Unghuga byggja á umhyggjuhring og sjálfseflingu. Umhyggjuhringur felst í jafningjastuðningi, virðingu og trúnaði þar sem fólk getur tjáð sig um það sem því liggur á hjarta og sjálfseflingin byggir á ýmsum verkefnum og tækifærum til hlutverka. Á fimmtudögum eru svo viðburðir, en skemmtinefnd Unghuga sér um að skipuleggja og auglýsa þá.

English talk circle
Supervision: Richard and Anseok
An English support group.
A self-help group where people can share what‘s on their minds in an atmosphere of understanding and confidentiality. The members of the group are international and therefore the main language used in meetings is English. The meetings are organized via a Facebook messenger group. For more information, contact Richard.

Spilakvöld
Umsjón: Richard, Lilja og Anseok
Hefur þú gaman af borðspilum og jafnvel stöku tölvuleik?
Þá er þetta hópurinn fyrir þig. Valin eru spil úr safni Grófarinnar eða spilum sem þátttakendur koma með. Spilakvöldin eru vanalega á þriðjudögum – að meðaltali hálfsmánaðarlega - og eru þau skipulögð í gegnum Facebook spjallhóp. Þessi hópur er ætlaður fyrir meðlimi Grófarinnar en nýtt fólk er einnig velkomið!
Hafið samband við Richard (fyrir ensku) og Lilju (fyrir íslensku).

Kínaskák og önnur spil
Umsjón: Allir
Spilum létt borðspil og sígilld spil þar sem við notum spilastokk. Eigum notalega stund saman og rifjum upp og lærum ný spil.

Tónlistarhópur
Umsjón: Jóhann og Ívan
Hvað syngur í þér?
Tónlistarunnendur Grófarinnar koma saman til að spila og skapa tónlist, læra og kenna öðrum. Öll sem hafa áhuga á tónlist eru velkomin og hvött til að prófa sig áfram með ýmis form tónlistar.

Skúrinn - spjallhópur
Umsjón: Sigurður Línberg og Friðrik
Spjallhópur karla
Spjallhópur um áhugaefni og reynsluheim karla. Þjálfun í að tjá sig í hóp.

Geðrækt II
Umsjón: Friðrik og Sonja
Innlegg og umræður tengdar geðrækt, geðheilsu og valdeflingu
Umræður út frá hinum ýmsu viðfangsefnum sem tengjast geðrækt og geðheilsu. Fókusinn er á jafningjafræðslu þar sem þátttakendur deila reynslu út frá viðfangsefni fundarins, öðrum til stuðnings og uppbyggingar. Fólk er hvatt til að velta fyrir sér viðfangsefninu í samhengi við eigið líf og reynslu. Virðing og trúnaður eru skilyrði.

Umhyggjuhópur
Umsjón: Friðrik og Brynjólfur
Hvað liggur þér á hjarta?
Vettvangur þar sem fólk getur tjáð sig um það sem því liggur á hjarta og deilt reynslu sín á milli. Virðing og trúnaður eru skilyrði, sem og í öðrum hópum.

Virknislökun
Umsjón: Hulda Berglind
Slökun og hugarró í virkni
Virknislökun er hugsuð sem streitulosun í upphafi vikunnar en einnig sem ánægjuleg sköpunarstund. Kveikt er á ljúfum tónum í virknihorninu og velur fólk sér þá virkni sem það hefur áhuga á. Í boði er að púsla, lita, hekla, prjóna og fleira sem raskar ekki ró annarra þátttakenda. Lagt er upp með að þetta sé róleg stund og að andrúmsloftið í Grófinni sé í þeim anda á meðan á virknislökun stendur.

Líkamsrækt í Eflingu
Umsjón: Hannes sjúkraþjálfari
Þrekhringur með leiðsögn sjúkraþjálfara
Við förum saman í sal Eflingar sjúkraþjálfunnar þar sem við tökum þrekhring undir handleiðslu Hannesar sjúkraþjálfara. Hægt er að fá leiðsögn varðandi æfingar út frá getu hvers og eins. Hver tími stendur yfir í 45 mínútur. Þetta er gott tækifæri til að fá hreyfingu í öruggu umhverfi í uppbyggjandi og hvetjandi félagsskap þar sem allir geta tekið þátt óháð formi og getu. Mælt er með því að mæta í íþróttafötum og með íþróttaskó sem má nota innandyra og hægt er að skipta um föt í búningsklefum Eflingar og fara þar í sturtu

Gyðjurnar - spjallhópur
Umsjón: Pálína og Hulda Berglind
Kvennasamfélag Grófarinnar
Tilgangurinn er að skapa kvennasamfélag þar sem þátttakendur fá tækifæri til að kynnast og æfa sig í að ræða ýmis málefni, í öruggu, skipulögðu umhverfi. Lögð er áhersla á að hópurinn taki vel utan um nýliða og í upphafi fundar er farið vel yfir fyrirkomulag fundarins.

Fjölbreytt hreyfing
Umsjón: Friðrik, Hulda og Birgitta
Fjölbreytt hreyfing
Við tökum fljölbreytta hreyfingu með það að markmiði að auka líkamlega og andlega vellíðan. Við nýtum góðviðrisdaga í útiveru og aðra daga verðum við í salnum okkar í Grófinni. Hreyfingin verður með ýmsu sniði. Allt frá léttum æfingum, teygjum og bandvefslosun yfir í hópefli, frisbígolf, kubb og fleira.

Grautur og gestir
Umsjón: Margrét og Rósa
Morgunstund gefur gull í mund!
Hafragrautur í boði fyrir Grófarmeðlimi. Tilvalið er að mæta að morgni og byrja daginn á hollum nótum. Létt spjall á staðnum og jafnvel góðir gestir!

Kór fyrir alla
Umsjón: Anna Petra og Hermann
Söngur og fjör undir gítarspili Hermanns!
Sönghópurinn var stofnaður af Önnu Petru Lindberg og Hermann Ragnar spilar undir á gítar. Hann er opinn öllum sem hafa gaman af því að syngja og er þátttaka gjaldfrjáls. Lagavalið er misjafnt, en flestir textar eru á Íslensku. Viljir þú taka þátt er þér boðið í hóp kórsins á Facebook, en þar er að finna alla textana við lögin. Mest íslensk tónlist. Engar söngprufur, bara mæta.

Spænska
Umsjón: Elín Ósk
¡Bienvenido¡
Þriðja geðorðið segir okkur að halda áfram að læra svo lengi sem við lifum. Þar af leiðandi er boðið upp á afslappaða spænskutíma í Grófinni þar sem áhersla verður á tal og hlustun. Hér er um að ræða fínustu heilaleikfimi sem hægt er að nýta í ferðalögum um spænskumælandi lönd. Einnig til að æfa samskiptafærni, leyfa sér að gera mistök og ef til vill hafa svolítið gaman. ¿Estás listo? ¡Nos vemos en las clases!

Morgunverk og vikuþrif
Umsjón: Allir
Höldum rýminu okkar hreinu og fínu
Morgunverkin felast í öllu því sem þarf að gera í byrjun dags, svosem að hella upp á kaffi, fara út með rusl, taka úr uppþvottavél o.fl.
Vikuþrifin felast svo í hreingerningum, að þurrka af, þrífa klósett, ryksuga og fleira í þeim dúr. Grófarfélagar hjálpast að við að halda svæðinu okkar hreinu og notalegu.