top of page

Unghugar Grófarinnar

Hvað erum við?

Unghugar Grófarinnar eru félagsskapur fólks sem vill hitta aðra á svipuðu reki og mynda jákvæð uppbyggileg tengsl sín á milli en verkefni hópsins miða sérstaklega að ungu fólki á aldursbilinu 18-30 ára.

Stuðningshópurinn er einkum ætlaður ungu fólki sem glímt hefur við andlegar áskoranir, er félagslega einangrað eða óvirkt í samfélaginu. Unghugahópurinn er opinn einstaklingum á hvaða stað sem er í bataferlinu, og fer starfssemin fram á jafningjagrundvelli. Starfið samanstendur af umhyggjuhóp, sjálfsvinnu og skemmtilegum viðburðum.

Með þátttöku í Unghugastarfinu fær fólk tilgang og tækifæri sem skipta það máli, myndar tengsl við jafningja og tekur smám saman að sér hlutverk innan Unghuga Grófarinnar. Grófin skapar umgjörð utan um starfið, stuðning og hvatningu til verkefnisins en Unghugar eru hluti af Grófinni sem slíkri og hafa aðgang að öllu sem þar er í boði á dagskrá Grófarinnar.

 

Unghugar hittast 2x í viku, á miðvikudögum og fimmtudögum (sjá dagskrá fyrir tímasetningar). Unghugafundur á miðvikudögum er um 60 mínútur og samanstendur hann af umhyggjuhring ásamt því að við notum einhvern tíma í skipulag á starfssemi Unghuga.

 

Á umhyggjufundum fær fólk að opna sig og segja frá því sem liggur þeim á hjarta, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Við veitum hvort öðru stuðning. Næst er tekið fyrir verkefni eða verkfæri sem snýr sérstaklega að sjálfsvinnu, bata (e. recovery-PACE) og valdeflingu (e. empowerment) og umræður í kringum það. Þessi verkefni geta verið umræðuefni eða hagnýt verkefni sem er ætlað að stuðla að bættri félagsfærni, sjálfsvitund og sjálfstrausti.

Regulega eru svo viðburðir sem Unghugar skipuleggja í sameiningu.

Fyrir nánari upplýsingar má senda tölvupóst á sonja.grofin@outlook.com eða hafa samband við okkur á Facebook-síðu Grófarinnar.

Vertu með!

bottom of page