top of page

Haraldur - og aðrar tilfinningar

Síðustu vikur höfum við verið að fjalla um tilfinningnar í Geðrækt II á föstudögum, og er greinin hugleiðingar mínar út frá þeirri umræðu.

 

Tilfinningar eru viðbrögð við aðstæðum. Þær eru krítískar í þróun okkar á þann hátt að þær stuðla að aðlögunarhæfni og getunni til að lifa af. Vegna þess hve mikilvægar þær eru koma þær mjög hratt upp og þarfnast ekki tímafrekra hugrænna ferla. Þær láta okkur vita samstundis þegar eitthvað bjátar á, en sömuleiðis gera þær okkur viðvart þegar eitthvað gott hendir okkur. Gjarnan er talað um jákvæðar og neikvæðar tilfinningar en persónulega tala ég frekar um góðar og erfiðar tilfinningar.


Neikvæðar tilfinningar gefa til kynna að þær eigi ekki rétt á sér eða séu á einhvern hátt rangar, en allar tilfinningar þjóna einhverjum tilgangi. Munurinn á góðum og erfiðum tilfinningum er í grunninn einfaldur; við upplifum góðar tilfinningar á borð við ánægju og öryggi þegar þörfum okkar er mætt, en erfiðar tilfinningar eins og ótta og reiði þegar við erum ekki að sinna þörfum okkar. Þó tilfinningar virðast órökréttar er ekki þar með sagt að þær séu ekki mikilvægar. Tilfinningar stýra virkni okkar og stuðla að vexti og þroska okkar sem manneskjur, ef við kunnum að hlusta á þær.


 

Kvíðahnúturinn sem ég gekk með um í maganum öll mín bernsku- og unglingsár heitir Haraldur. Haraldur hefur oft skotið upp kollinum á mínum stutta fullorðinsferli en við eigum núna í meira elska-hata sambandi í stað meðvirknissambandsins sem við áttum í áður. Það er að segja, hann lætur finna fyrir sér og í flestum tilfellum get ég skilgreint hvort hann sé viðeigandi miðað við aðstæður eða ekki.

Hnúturinn fékk nafnið Haraldur því ég vissi ekki hvaða tilfinning þetta væri. Tilfinningin að ég væri með svarthol í maganum sem væri að sjúga úr mér orku og gleði. Tilfinningin sem virtist ekki alltaf vera í samhengi við aðstæður né fylgdi nokkru markvissu hugsanamynstri. Einhvern tíman hafði sálfræðingur bent mér á að ef ég vissi ekki hvað tilfinningin héti gæti ég bara gefið henni hvaða nafn sem mér sýndist. Ég var ung byrjuð að skrifa smásögur og ljóð, og oftar en ekki hét vondi karlinn í sögunum mínum ýmist Haraldur eða Harold, svo það nafn var augljós kostur. Það leið ekki á löngu þar til ég komst að því hvað Haraldur var en ég hafði í raun enga hugmynd um hvernig ég gæti losnað við hann, svo við lifðum lengst af hvorki í sátt né samlyndi. Ég vissi ekki hvernig ég gat tjáð öðrum Harald, né hvernig best væri að takast við hann. Því varð Haraldur sífellt stærri og tók að breytast og afmyndast þar til hann hafði sogað nær allar aðrar tilfinningar inn í sig og var farinn að brjótast út í hinum ýmsu hegðunarmynstrum og skaðráðum, mörg hver sem ég tengdi ekkert við Harald.


Þvert á hugmyndir margra eru ung börn ótrúlega góð í að tjá tilfinningar sínar. Tjáning tilfinninga er nefninlega ekki eingöngu það að tala um þær. Tjáning tilfinninga er að gráta, öskra, hlægja, hreyfa sig, skrifa, syngja og sofa svo dæmi séu tekin. Fljótlega eftir að við förum að skilja talað mál er okkur sagt að hafa lægra, ekki grenja yfir engu, sitja kyrr, ekki hlægja svona hátt. Réttið upp hönd ef þið kannist við þetta...


Smám saman byrja flestir að tjá tilfinningar sínar á samfélagslega samþykktan máta sem einfaldlega mætir ekki þörfum allra, og gerumst svo sjálf sek fyrir að krefjast þess sama af börnunum okkar. Við missum færnina til að tjá tilfinningar okkar á náttúrulegan hátt og fáum oft ekki þjálfun í að tjá þær á skilvirkan og árangursríkan máta. Við höfum öll ævilanga reynslu með okkar eigin tilfinningar, en það gerir okkur ekki endilega að sérfræðingum í þeim. Við þurfum að þjálfa þessa færni rétt eins og hverja aðra, bæði börn og fullorðnir. Svo lengi sem við sköðum ekki aðra eða sjálf okkur höfum við fullan rétt á því að tjá tilfinningar okkar. Ef við fáum pláss til að tjá okkur og losa um spennuna inn í okkur er líka mun líklegra að við getum nálgast aðstæður með skýran huga.


Þannig að næst þegar þig langar að dansa af gleði, gerðu það! Þarftu að öskra eða hlaupa nokkra hringi til að ná úr þér vöðvaspennunni? Gerðu það. Þarftu að skrifa um vandamálið sem liggur á þér, eða tala um það? Gerðu það. Það skiptir ekki máli hvort tilfinningin heiti gremja eða Jónína, það er enginn að stoppa þig nema þú og áralöng skilyrðing sem á ekkert erindi við þig lengur.

284 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page