top of page

Skýjað með köflum

Elín Ósk Arnarsdóttir skrifar:


Þegar ég var lítil þá trúði ég á jólasveininn og tannálfinn. Eins og kannski flest börn gera. En það var líka nokkuð annað sem ég trúði innilega. Ég trúði því að hamingjusamir einstaklingar væru alltaf glaðir. Þegar einstaklingar höfðu fundið hamingjuna lifðu þeir sælir til æviloka. Alveg eins og í ævintýrunum. Engin sorg eða sút. Bara bros, hlátur og kátína. Ótrúlegt en satt, þá er það bara ekki rétt. Núna veit ég svo sannarlega betur og trúi því ekki lengur að hamingjusamir einstaklingar séu alltaf glaðir.


Mannskepnan er tilfinningavera og því er eðlilegt að hún finni fyrir ýmsum tilfinningum. Við höfum ómeðvitað flokkað þær í góðar, s.s. gleði, öryggi, jákvæðni og síðan slæmar, s.s. reiði, kvíði, depurð. Eins og allt sem er slæmt, þá forðumst við það eins og heitan eldinn. Þar af leiðandi reynum við að koma í veg fyrir að þurfa upplifa þessu ,,slæmu" tilfinningar. En svo ég endurtaki mig nú þá erum við tilfinningaverur og það er í eðli okkar að finna fyrir tilfinningum, öllum skalanum. Og hamingjusamir einstaklingar verða líka reiðir eða sorgmæddir. Það er mikilvægt að forðast ekki neinar tilfinningar heldur samþykkja þær allar. Enn fremur ættum við frekar að flokka þær sem auðveldar og erfiðar en ekki góðar og slæmar. Svo njótum við þess þegar auðveldar tilfinningar koma upp en samþykkjum erfiðu tilfinningarnar þegar þær birtast. Erfiðu tilfinningum getum við unnið úr eða leyft þeim einfaldlega að líða hjá. Engin tilfinning varir að eilífu.


 

Mér finnst vanta í samfélaginu svokallað tilfinningalæsi. Við erum flest með þá kröfu að vera sífellt hress og ef við erum það ekki er gríman sett upp. En það er óþarfa orkueyðsla sem fer í að streitast á móti erfiðu tilfinningunum í stað þess að leyfa þeim að vera. Sjáið bara börnin, þau tjá sig nákvæmlega eftir líðan og það ættum við líka að gera. Ég er ekki að segja að við eigum að öskra í miðri matarbúð þegar við erum pirruð heldur að leyfa tilfinningum að koma upp, hvort sem þær eru auðveldar eða erfiðar. Ekki setja upp grímu og lifa lífinu sem leikari. Enda er stærsta vandamálið að við þolum ekki endalaust að setja grímuna upp. Þá safnast bara tilfinningarnar þar til að á endanum springur maður. Og það skapar meiri sársauka heldur en ef maður vinnur samstundis úr tilfinningunni.


Það mætti líkja tilfinningum við veðrið. Suma daga er heiðskírt og sólin lætur sjá sig. Aðra daga er þungskýjað. Stundum er rigning, rok, snjókoma eða jafnvel stormur. Alveg eins og veðrið er breytilegt, þá eru tilfinningar okkar það líka. Og þó það sé leiðinlegt veður í dag er ekki endilega víst að sama verði á teningnum á morgun.


Í staðinn fyrir að bæla niður tilfinningar af því að þær eru ekki velkomnar er gagnlegt að líta á þær með forvitni að leiðarljósi. Það er nefninlega í flestum tilvikum ákveðin ástæða fyrir tilfinningum okkar. Tilfinningar eru eins og áttaviti sem segja okkur heilmargt. Segja okkur hvað er að gerast og hvaða áhrif það hefur á okkur. Og ef að við gefum okkur tíma til að hlusta á tilfinninguna getum við brugðist við aðstæðum með skynsemi að vopni.


Það eru eflaust margir sem finnst allt þetta tilfinningatal vera væmið og algjört kjaftæði. Sem betur fer er samfélagið hins vegar að breytast og við erum mun opnari gagnvart tilfinningum. Sem er frábært þar sem tilfinningar eru ákveðinn hluti af okkar daglega lífi. Alveg eins og veðrið er hluti af okkar daglega lífi.


*Your feelings will guide you if you have the courage to listen*

133 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page