top of page
Sky

Siðareglur Grófarinnar Geðræktar

Fyrir stjórnarmeðlimi, starfsfólk og sjálfboðaliða

Tilgangur
siðareglna

 • Að veita starfsemi Grófarinnar stuðning í veigamiklu hlutverki sínu sem valdeflandi notendasamtök og batasamfélag fólks sem glímir við geðraskanir eða félagslega einangrun.

 • Að styrkja ímynd Grófarinnar, viðhalda og auka traust almennings á starfi hennar með því að upplýsa um þau viðmið sem móta starfið.

 • Að efla gegnsæi, góða stjórnarhætti og ábyrgt starf Grófarinnar í þágu almennings.

 • Að veita stjórn Grófarinnar, starfsmönnum og sjálfboðaliðum viðmið um breytni og ábyrgð sem unnið er eftir, umfram lagalegar skyldur. 

Ábyrgð gagnvart notendum, félagsmönnum og styrktaraðilum

 1. Að sýna notendum Grófarinnar, félagsmönnum, styrktaraðilum og öðrum, virðingu og trúnað án tillits til þjóðernis, kyns, kynhneigðar, fötlunar, trúar, skoðana eða annars sem er ólíkt með fólki.

 2. Að mismuna ekki þeim sem samskipti eru höfð við, á grunni þjóðernis, kyns, kynhneigðar, fötlunar, trúar, skoðana eða annars sem er ólíkt með fólki.

 3. Að veita áreiðanlegar og skýrar upplýsingar fljótt og vel. Notendum þjónustu eru gefnar aðgengilegar upplýsingar um starfsemi Grófarinnar og þeim auðveldað að nýta sér starfið og taka þátt í því.

 4. Að gæta fyllsta trúnaðar og þagnarskyldu um notendur Grófarinnar og um viðkvæmar upplýsingar sem maður gæti orðið áskynja í starfi. Að nefna ekki á nafn eða gefa upplýsingar um notanda í Grófinni, fyrrverandi notanda eða aðstandendur hans. Þetta á einnig við í samskiptum við fjölmiðla. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera af brýnni nauðsyn (augljós hætta hefur skapast), samkvæmt lagaboði eða ef notandi hefur gefið leyfi.

 5. Að hvetja notendur til að gera valdeflandi og batahvetjandi breytingar í lífi sínu. Að öðru leyti skal ekki hvetja notendur til að tileinka sér viðhorf eða hegðun sem er fremur sprottin af manns eigin lífsviðhorfum en þeirra.

 6. Að valda ekki notendum líkamlegum eða andlegum skaða, viljandi. Að sýna ekki notendum lítilsvirðingu eða gera þá að athlægi með orðum eða athöfnum. Að leyfa ekki heldur öðrum notanda eða samstarfsmanni að gera slíkt.

 7. Að misnota ekki stöðu sína til að misbjóða eða svíkja traust þeirra sem til manns sækja. Að taka aldrei taka þátt í athöfnum sem geta túlkast á þann hátt maður sé að notfæra sér fólk í ábótaskyni, hvort sem það er félagslega, fjárhagslega eða kynferðislega.

 8. Að leitast við að vega og meta styrk sinn í starfi, einnig veikleika og fordóma, og gera sér ljóst að notendur geta ofmetið færni manns og sérfræðiþekkingu. Vera þess vegna ávallt vakandi fyrir því hvenær það er notanda fyrir bestu að vísa honum til annars sérfræðings* eða leita álits þeirra. (*Hugtakið ,,sérfræðingur“ vísar hér hvort tveggja til sérfræðings með fagþekkingu og einstaklings með reynslu af geðröskunum og bataferli.)

 9. Að taka fúslega leyfi frá störfum eða segja sig frá þeim ef til þess kemur að maður verður ekki fær um að sinna þeim, t.d. vegna veikinda, geðræns vanda eða aðstæðna. Að mæta slíkum skrefum með skilningi, hvort sem þau eru eigin skref eða annarra, enda ekkert til að skammast sín fyrir.

 10. Að leitast við að vera góð fyrirmynd hvað varðar notkun á áfengi og vímuefnum. Sé maður að glíma við fíkn í áfengi eða vímuefni, er því heitið að nota hvorugt meðan starfað er fyrir Grófina. Einnig er því heitið að fara fúslega í lyfjapróf ef stjórnendur óska þess.

Ábyrgð stjórnarmanna, starfsfólks og sjálfboðaliða

 • Að vinna að því að skapa traust almennings á starfsemi Grófarinnar og gera ekkert sem rýrir orðstýr hennar hvort sem er í einkalífi eða starfi.

 • Að halda tryggð við markmið og hugmyndafræði Grófarinnar um valdeflingu, batamódel og jafningjanálgun og starfa í anda þessarar hugmyndafræði.

 • Að viðhalda og bæta við sig þekkingu og færni í starfi með því að fylgjast með nýjungum og sækja námskeið og símenntun ef tök eru á. 

 • Að nýta ekki trúnaðarupplýsingar sjálfum sér til framdráttar.

 • Að veita ekki fyrirgreiðslu vegna persónulegra tengsla eða vensla.

 • Að virða störf annarra félaga og samtaka og kynna sig í krafti eigin starfs.

 • Að sýna samstarfsfólki virðingu, samstarfsvilja og stuðning og stuðla að framgangi verkefna.

Ábyrg fjármál

 • Meðferð fjármuna er samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og endurskoðun reikninga er í höndum kjörinna skoðunarmanna og/eða löggiltra endurskoðenda.

 • Upplýsingar um fjárhag og rekstur eru gegnsæjar, settar fram á skýran máta.

 • Ávallt er skýrt til hvers fjár er aflað og tilskilin leyfi fyrir söfnunum fengin.

 • Ágóðahlutur af hvers kyns sölu og kostnaðarhlutfall við fjáraflanir liggja fyrir og eru aðgengileg þeim sem þess óska.

 • Ráðvendni er gætt og ekki er tekið við styrkjum frá aðilum sem með framgöngu sinni eða starfsemi, vinna gegn baráttumálum Grófarinnar.

 • Grófin Geðrækt aflar ekki fjár með ósiðlegum hætti.

 • Starfsfólk gætir ráðdeildar í daglegum rekstri og við meðferð fjármuna félagsins.

Ábyrgð gagnvart almenningi, fjölmiðlum og samfélagi

 • Upplýsingar frá fulltrúum Grófarinnar skulu vera áreiðanlegar og gefa rétta mynd og samhengi þess sem verið er að kynna. Tölfræði og hugtök skulu vel skilgreind og stuðla að skýrum og réttum fréttaflutningi til almennings.

 • Grófin Geðrækt starfar sjálfstætt að markmiðum sínum með hagsmuni notenda sinna, félagsmanna og almennings að leiðarljósi. Jafnframt er Grófin skuldbundin notendum sínum, öllum sem styrkja eða standa að starfseminni og almenningi til að vanda til verka og viðhafa reglubundnar mælingar á gæðum og árangri starfsins.

 • Grófin Geðrækt hefur umhverfissjónarmið ávallt að leiðarljósi í rekstri sínum og sýnir með því gott fordæmi í umgengni við náttúru og samfélag.

Um siðareglurnar

 • Siðareglur þessar birtast á heimasíðu Grófarinnar Geðræktar.

 • Starfsmönnum og sjálfboðaliðum Grófarinnar, þar með talið stjórnar- og nefndarmönnum, eru kynntar þessar reglur í upphafi starfs síns fyrir félagið. Þeir staðfesta með undirskrift sinni að þeir fallist á að starfa eftir reglunum.

 • Vakni grunur um eða verði ljóst að siðareglur þessar hafi verið brotnar má hver sem þess verður var, tilkynna það til stjórnar Grófarinar. Skal stjórnin taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu með hliðsjón af lögum félagsins.

 • Brot á siðareglum geta leitt til umræðu, leiðsagnar og lausnaleitar þar sem reynt er að bæta fyrir brot eins og hægt er eða gera aðra þá bragarbót sem þurfa þykir. Alvarlegt brot eða endurtekin brot geta leitt til uppsagnar.

 • Þess skal gætt að sá sem leggur fram upplýsingarnar um ætlað brot á siðareglunum, beri ekki skaða af.

 • Ef upp kemur flókið siðferðilegt álitamál sem erfitt reynist að greiða úr – verður fengin utanaðkomandi aðstoð. 

bottom of page