top of page

Samastaður - reynslusaga

Updated: Apr 27, 2021

Að eiga sér samastað er ekki sjálfsagður hlutur. Að geta sest niður og dregið djúpt andann og fundist maður öruggur er því miður eitthvað sem ekki allir hafa. Í hvirfilbylnum sem unglingsárin mín voru fann ég þann stað í Grófinni. Ég hafði ekki heyrt um Grófina fyrr en ég tók þátt í sjálfboðaliðaverkefni á vegum Menntaskólans á Akureyri. Við mættum þarna þrír vinir og skrifuðum strax undir trúnaðarsamning, en sá samningur virtist frekar vera formsatriði en skortur á trausti því þarna var fólkið vinveitt og tók okkur opnum örmum. Fyrsta verkefnið okkar var að taka þátt í spilakvöldi á vegum Unghuga Grófarinnar sem, eins og nafnið gefur til kynna, er hópur fyrir yngri notendur. Það kvöld kolféll ég fyrir þessu batteríi. Þarna voru allir með troðfulla bakpoka af íþyngjandi hugsunum og vandamálum, en þetta kvöld gátum við tekið þá af okkur og hlegið saman. Þarna var í rauninni ekki aftur snúið. Ég hef átt við andlegar áskoranir að stríða frá því að ég man eftir mér og hafði verið að leita að einhverju, hverju sem er, sem gæti hjálpað í mörg ár en hafði ekki fengið það sem ég þurfti út úr hefðbundnu heilbrigðiskerfi sem hefur lengi verið í sársaukafullu þroti.

Næstu mánuði tók ég þátt í starfi Unghuga og eignaðist þar vini sem áttu eftir að setja mark sitt á byrjun fullorðinsáranna. Áður en ég vissi af hafði ég skráð mig í forvarnarteymið sem verið var að setja saman og þar komst ég loksins út úr þrönga þægindarammanum. Ásamt hugrökku fólki hélt ég í grunnskóla Akureyrar og nágrennis og sagði mína sögu ásamt því að koma á framfæri alls kyns bjargráðum. Af öllu því sem mér hefur tekist að gera um ævina er þetta verkefnið sem ég er hvað stoltust af að hafa tekið þátt í. Það skemmdi auðvitað ekki fyrir að ég fékk að fara með teyminu á Neskaupsstað og sjá aðeins meira af fallega landinu okkar.

Eftir að ég kláraði menntaskólann fór ég á vit ævintýranna, og bjó í Kóngsins Köben í einn vetur. Þar urðu áföll og vanhirt geðheilsa til þess að ég flutti aftur heim eftir aðeins nokkrar mánuði. Það tók mig næstum því þrjú ár í viðbót að horfast í augu við þá djöfla sem ég hafði að draga, þar sem mér fannst ég ekki tilbúin til að takast á við þau verkefni sem mér lágu fyrir hendi. Á þessum tíma umturnaðist líf mitt, en á örstuttum tíma fór ég frá því að vera áttavilt og einmana í að vera komin með fjölskyldu og byrjuð í sálfræðinámi við Háskólann á Akureyri. Ég stundaði Grófina lítið þangað til ég rakst á hann Eymund í Nettó í byrjun árs 2020 fyrir slysni og viku seinna var ég aftur orðin partur af Geðfræðsluteyminu. Svo sterkt er aðdráttarafl Grófarinnar. Sama ár gerðist ég varakona í stjórn Grófarinnar og enduruppgötvaði brennandi ástríðu mína fyrir geðheilbrigðismálum og geðrækt. Þrátt fyrir að vera í fullum skóla, með tvær vinnur og tvö börn tók ég að mér öll þau verkefni sem mér var hleypt í, en þó fannst mér eitthvað vanta. Unghugarnir voru ekki lengur starfandi. Ég ákvað að ég ætlaði að vinna að því að koma þeim af stað aftur en sagði engum frá því, enda var ég komin á yfirsnúning og í rauninni byrjuð að bræða úr mér. Fyrir utan stjórnarstörf og kynningarteymið sem ég hafði komið mér í tók ég mér pásu frá Grófinni yfir sumarið á meðan ég vann en var þó alltaf með Unghugana á sveimi í huganum.

Um haustið 2020, það herrans ár, var mér svo boðin vinna hjá Grófinni sem verkefnastjóri Unghuga og jafningjafræðari! Ég tók ákvörðun um að hætta í öllum öðrum vinnum (ég hugsa að ég sé með meiri starfsveltu en flestir vinnustaðir eru með starfsmannaveltu) og einbeita mér að Grófinni, skólanum, og geðheilsunni. Ég á enn langt eftir, enda er bati ekki endastöð, heldur ferðalag, en ég er í draumastarfinu og draumanáminu, þar sem hver dagur sem fer í að vinna fyrir Grófina endurspeglast í sjálfsvinnu hjá mér. Þó er gott að hafa yfirmann sem potar í mann þegar maður fer að detta í yfirsnúning.

Það er hreint ótrúlegur hlutur að vera partur af þessu litla samfélagi. Fólkið sem ég hef kynnst þarna er mér mikill innblástur á hverjum einasta degi. Að sjá fólk á öllum vegum lífsins og jafnvel á svipuðu reki og ég sjálf er gjöf sem ég tek ekki sem sjálfsögðum hlut. Við sjáum fólk vaxa og dafna, hrasa og standa upp aftur með hjálp þessa yndislega hóps. Þegar maður sest niður með ilmandi kaffibolla er alltaf stutt í gott spjall og þó fólk létti á andlegu hliðinni er alltaf stutt í brosið og jákvæðnina.

Að vera partur af „Grófarliðinu” hefur kennt mér að það er í lagi að vera stundum ekki í lagi. Það er í lagi að vera leiður ef maður finnur leiðina að gleðinni aftur. Það er í lagi að biðja um stuðning og félagsskap þegar eitthvað bjátar á, og það er meira en í lagi að mæta í kaffi og sitja og þegja. Grófin kenndi mér hvað það er að vera í lagi og hvaða úrræði ég hef þegar allt er í ólagi. Grófin hefur kennt mér margt og vonandi finnur þú þinn samastað þar líka. Sonja Rún Magnúsdóttir

531 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page